Kennarinn sem vill kveikja í metnaði unga fólksins

Valgarður Lyngdal Jónsson er grunnskólakennari og forseti bæjarstjórnar Akraneskaupsstaðar. Hann trúir því að samvinna sé árangursríkari en samkeppni og vill að jafnaðarstefnan verði leiðarljós í velferðarsamfélagi þar sem unnið er gegn mismunun, skorti og sóun. Fjölskyldan skiptir hann öllu máli.

Valgarður hefur verið bæjarfulltrúi á Akranesi frá árinu 2014 og var hann forseti bæjarstjórnar á árunum 2018 - 2022. Valgarður var kosinn í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi á kjördæmisþingi í mars 2021 og var það í fyrsta skipti sem hann bauð sig fram til starfa á Alþingi. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2022 hélt Valgarður embætti sínu áfram sem forseti bæjarstjórnar Akraneskaupsstaðar.  

Þegar Valgarður stóð frammi fyrir því sem ungur maður að velja sér háskólanám, þá varð Kennaraháskólinn fyrir valinu. „Mér fannst kennaranámið gefa mér tækifæri til að leggja mitt af mörkum við að hlúa að hinum raunverulegu verðmætum samfélagsins, sem eru börnin okkar og unga fólkið — mannauður framtíðarinnar.“ Valgarður nýtur þess að vinna með ungmennum og aðstoða þau við að efla hæfileika sína og færni. „Þau taka stór skref í átt að auknum þroska á þessu mikilvæga æviskeiði sem unglingsárin eru, hefur verið ómetanlegt og ég hef alltaf upplifað kennarastarfið sem afar mikilvægt starf.“

Komst í úrslit í Útsvari

Margir kannast við Valgarð frá því hann var í keppnisliði Akraness í spurningaþáttunum Útsvari á RÚV, en liðinu gekk vel og komst m.a. í úrslitaviðureign Útsvars árið 2014. „Ég ólst upp í sveit, á Hvalfjarðarströnd, og tækifæri til félagslífs voru eðlilega nokkuð takmörkuð. Ég hef hins vegar alltaf lesið mikið og haft gaman af því að afla mér þekkingar á hinum ýmsu sviðum.“ Valgarður les mikið, til að mynda af sagnfræðiritum, og finnst áhugaverðast að koma auga á mannlega þáttinn, til dæmis þegar stórum atburðum er lýst í gegnum reynslu einstaklinganna sem upplifðu þá. „Oft er besta leiðin að læra um hið stóra í gegnum hið smáa.“

Vill fá unga fólkið til að trúa á sjálft sig

Vinir og samstarfsfólk Valgarðs lýsa honum sem sönnu prúðmenni sem eigi einstaklega gott með að vinna með öðrum og takast á við viðfangsefnin hverju sinni á málefnalegan hátt, jafnvel þótt skoðanir séu skiptar. Gamlir nemendur segja Valgarð vera mjög eftirminnilegan kennara, hann kunni þá list að gera kröfur til nemenda sinna en kveikja um leið í metnaði þeirra og fá þá til að trúa á sjálfa sig og styrkleika sína. Hann hafi ávallt sýnt nemendum sínum virðingu og þannig öðlast virðingu þeirra óskoraða á móti. „Ég hef alltaf haft það í huga að það er ekkert öruggt hvað nemendur mínir eiga eftir að muna mikið af því námsefni sem ég hjálpa þeim í gegnum í skólanum, en það er alveg öruggt að þau munu alltaf muna hvernig þeim leið í tímunum hjá mér.“

Valgarður á farsælan feril að baki sem kennari, en hann hefur starfað við bæði kennslu og stjórnun á Patreksfirði, við Árbæjarskóla, á Flúðum og við báða grunnskólana á Akranesi.

Jafnaðarhugsjónin er auðlind, því hún felur það í sér að allir hafi jafnan rétt til að njóta styrkleika sinna en vinnur gegn sóun á mannauði og hæfileikum

Valgarður Lyngdal Jónsson Oddviti Samfylkingarinnar á Akranesi

Valgarður segist alltaf hafa verið félagshyggju- og jafnaðarmaður. „Ég trúi því að sameinuð séum við ávallt sterkari en sundruð, að samvinna sé ávallt árangursríkari en samkeppni.“ Hann telur jafnaðarstefnuna stuðla að samheldni, samvinnu, trausti og mannvirðingu, en vinna gegn mismunun, skorti og sóun. „Jafnaðarhugsjónin er auðlind, því hún felur það í sér að allir hafi jafnan rétt til að njóta styrkleika sinna en vinnur gegn sóun á mannauði og hæfileikum.“

Vill láta af sveltistefnu yfirvalda

Valgarður vill sjá jafnaðarstefnuna birtast í virkri velferðarstefnu sem eflir virkni fólks og getu til þátttöku í samfélaginu, í stað þess að horfa um of á það sem fólk skortir til fullrar þátttöku. Hann telur að það sé löngu tímabært að jafnaðarstefnan komist að borðinu hvað varðar þjónustu við aldraða. „Það þarf að láta af þeirri sveltistefnu sem ríkisvaldið hefur viðhaft gagnvart hjúkrunarheimilum sem rekin eru af sveitarfélögum.“

Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda lífsgæða

Sem jafnaðarmaður vill Valgarður leggja sitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða. „Í hinu víðfeðma Norðvesturkjördæmi er víða verk að vinna svo þetta markmið megi nást,“ en þar nefnir hann meðal annars löngu tímabæra nútímavæðingu vegakerfisins og jafnt aðgengi að öruggum fjarskiptum og orku svo atvinnulíf megi þróast og dafna. Víða um kjördæmið hafi stórgallað fiskveiðistjórnunarkerfi unnið mikinn skaða og brýnt sé að jafna þann aðstöðumun sem þar hefur skapast, auka möguleika á nýliðun og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af sameiginlegri auðlind okkar. „Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda lífsgæða í okkar kjördæmi og þar skiptir stuðningur stjórnvalda höfuðmáli, að hlúð sé að vaxtarsprotum en ekki síður að gætt sé að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem hér starfa.“ Sem dæmi nefnir hann að líta eigi á fyrirtæki í stóriðju sem mikilvægustu samstarfsaðila yfirvalda við að draga úr kolefnisspori Íslands og styðja þau til góðra verka á því sviði.

Úr fjölskyldualbúminu...

  • Náin fjölskylda
    Fjölskyldan skiptir mig öllu máli. Ég trúi ekkert sérstaklega á framhaldslíf og er ekki viss um að ég verði til að eilífu. En með því að koma á einhvern hátt mínum gildum, hlýju og ástúð til barnanna, vona ég að bestu partarnir af mér muni lifa áfram í þeim. 
  • Með barnabarnið á flakki
    Við fórum um Vestfirði í sumar, bara við tvö með barnabarnið okkar, Jón Tinna. Það er svo yndislegt að ferðast með barni. Maður verður að miða prógrammið við hann, en maður uppgötvar líka heiminn í gegnum hans upplifun. Og það er best í heimi!
  • Ísland er æði
    Hvort sem maður er á tjaldstæði, eða í einhverri gistingu; á hóteli eða leigir sumarbústað, þá er Ísland æði. Það er hægt að upplifa landið á svo ótrúlega fjölbreyttan hátt og það er alltaf jafn frábært. Þarna var kalt - kuldi og rok - en ferðin stórkostleg samt.

Nokkrar laufléttar...

  • Ég get hreyft eyrun.

  • Hún væri langloka með ofboðslega fjölbreyttu áleggi. Íslenskri skinku, frönskum osti og alls konar gúmmelaði. Samfylkingin rúmar nefnilega alls konar fólk, með alls konar skoðanir og úr öllum áttum. Og síðast en ekki síst erum við alþjóðasinnar og óhrædd við að njóta þess besta sem Ísland hefur að bjóða og þess sem við getum sótt annarsstaðar frá. Svo hættir okkur til að vera með fullmiklar langlokur. Oft gæti dugað að skera langlokuna í tvennt og helmingurinn væri alveg nóg.

  • Að langa í það sem maður hefur frekar en að langa í eitthvað sem maður hefur ekki nú þegar. 

Æviágrip

Fjölskylduhagir

Valgarður er fæddur á Akranesi 14. september 1972 og alinn upp á Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd. Foreldrar: Jón Valgarðsson (fæddur 26. september 1946) og Heiðrún Sveinbjörnsdóttir (fædd 20. mars 1948) bændur á Eystra-Miðfelli. Maki: Íris Guðrún Sigurðardóttir (fædd 31. ágúst 1972) aðstoðarleikskólastjóri. Foreldrar: Sigurður Á. Hannesson og Svala Ívarsdóttir. Börn: Hlín Guðný (1994), Jón Hjörvar (1998) og Hrafnkell Váli (2004).

Stjórnmálaferill

  • Stúdentspróf FVA 1992.
  • Kennarapróf KHÍ 1996.
  • Kennsla og stjórnunarstörf í grunnskólum: Patreksfjörður 1996-99, Árbæjarskóli 1999-2000, Flúðaskóli 2000-2003, Brekkubæjarskóli 2003-2008, Grundaskóli síðan 2010.
  • Fræðslu- og kynningarmál hjá Orkuveitu Reykjavíkur 2008-2010.
  • Í menningar- og safnanefnd Akraneskaupstaðar 2006-2008.
  • Í stjórn kennarafélags Vesturlands 2011-2014, formaður félagsins 2012-2014.
  • Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi síðan 2014.
  • Í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 2014-2018.
  • Í skipulags- og umhverfisráði 2014-2018, í bæjarráði síðan 2018.
  • Forseti bæjarstjórnar Akraness síðan 2018.