Valgarður Lyngdal Jónsson 1. sæti

"Ég býð mig fram vegna þess að sem jafnaðarmaður vil ég leggja mitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða."

Nafn: Valgarður Lyngdal Jónsson

Fæðingardagur: 14. september 1972

Starf: Grunnskólakennari og bæjarfulltrúi

Heimili: Vallholt 13, Akranesi

"Ég býð mig fram vegna þess að sem jafnaðarmaður vil ég leggja mitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða."

---

Ég býð mig fram í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2021.

Eiginkona mín er Íris Guðrún Sigurðardóttir aðstoðarleikskólastjóri og eigum við þrjú börn og einn dótturson. Ég fæddist á Akranesi árið 1972 og ólst upp við sveitastörf á búi foreldra minna að Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd, útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1992 og lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands 1996. Kennsluferilinn hóf ég á Patreksfirði þar sem ég bjó í þrjú ár. Síðan þá hef ég starfað  víða við kennslu og stjórnun í grunnskólum, en á Akranesi hef ég búið síðan 2003 og starfað við báða grunnskóla bæjarins.

Ég fór fyrst í framboð fyrir Samfylkinguna á Akranesi árið 2006 og sat þá um tíma í menningar- og safnanefnd bæjarins. Ég tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2014, sat í minnihluta það kjörtímabil en tók við oddvitasæti listans fyrir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum fékk Samfylkingin ríflega 30% atkvæða á Akranesi, þrjá menn kjörna í bæjarstjórn og höfum við starfað í meirihluta á yfirstandandi kjörtímabili ásamt Framsókn og frjálsum. Við höfum notað tímann vel á þessu kjörtímabili og haldið vel utan um samfélag í örum vexti, með félagshyggju og styrk samfélagsins að leiðarljósi.

Ég hef alltaf verið félagshyggju- og jafnaðarmaður. Ég trúi því að sameinuð séum við ávallt sterkari en sundruð, að samvinna sé ávallt árangursríkari en samkeppni.  Jafnaðarhugsjónin er auðlind, því hún felur það í sér að allir hafi jafnan rétt til að njóta styrkleika sinna en vinnur gegn sóun á mannauði og hæfileikum. Jafnaðarstefnan stuðlar að samheldni, samvinnu, trausti og mannvirðingu en vinnur gegn mismunun, skorti og sóun.

Ég vil meðal annars sjá jafnaðarstefnuna birtast í virkri velferðarstefnu og einnig er löngu tímabært að jafnaðarstefnan komist að borðinu hvað varðar þjónustu við aldraða.

Sem jafnaðarmaður vil ég leggja mitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða. Í hinu víðfeðma Norðvesturkjördæmi er víða verk að vinna svo þetta markmið megi nást. Þar má nefna löngu tímabæra nútímavæðingu vegakerfisins og jafnt aðgengi að öruggum fjarskiptum og orku svo atvinnulíf megi þróast og dafna. Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda lífsgæða í okkar kjördæmi og þar skiptir stuðningur stjórnvalda höfuðmáli, að hlúð sé að vaxtarsprotum en ekki síður að gætt sé að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem hér starfa.

Ég sækist eftir stuðningi félaga minna í Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi á kjördæmisþingi næstkomandi laugardag.