Viðar Eggertsson

3. sæti Reykjavík suður

Leikstjórinn sem elskar hið mannlega

Viðar Eggertsson hefur rýnt í hið manneskjulega á langri starfsævi sinni á og við leiksviðið. Hann á að baki yfir 50 verk á sviði sem leikstjóri og hefur leikið í hartnær 70 verkum. Hann er tilbúinn í að leggja sitt á vogaskálarnar til að tala máli þeirra sem ekki hafa aðgengi að ræðustólum og bakherbergjum, en hann þekkir vel hvernig það er að fá ekkert forskot í vöggugjöf. Viðar á hundinn Ísar og er giftur Sveini Kjarntanssyni matreiðslumeistara.

Viðar Eggertsson þekkir á eigin skinni að vera fátækt barn og vera jaðarsettur, en Viðar er fæddur 1954 og móðir hans var fátæk vinnukona sem buðust ekki mörg úrræði. Viðar var því vistaður á vöggustofu 17 daga gamall ásamt tvíburasystur sinni og dvaldi þar til tveggja og hálfs árs aldurs. Þegar systkinin luku dvölinni var hvorugt þeirra talandi.

„Börn fæðast í aðstæður sem geta orðið þeim um megn að breyta. Fátækt verður oft að gildru sem þau eru föst í og það jafnvel til æviloka,“ segir Viðar og útskýrir að hann hafi náð að brjótast úr þeim aðstæðum, en að það hafi meira og minna tekið hann allt lífið. „Til að breyta óbærilegum aðstæðum þarf að koma til valdeflandi aðgerða sem veittar eru jaðarsettu fólki til að takast á við eigið líf og breyta því til batnaðar.“

Menning er mennska

Viðar hefur varið öllum sínum starfsaldri í manneskjuna og hlutskipti hennar í sinni fjölbreyttustu mynd. Þetta hefur hann gert sem leikari, leikstjóri, leikhússtjóri og dagskrárgerðarmaður á Rás 1. „ Í leikhúsinu og með dagskrárgerð í útvarpi fæst maður við að greina, skoða, álykta, skapa og ekki síst að kafa ofan í djúpin,“ segir Viðar og bætir því við að takist vel til komi eitthvað einstakt upp á yfirborðið. „En ferðalagið er ekki síður mikilvægt og gefandi en áfangastaðurinn sjálfur. Órjúfandi ferli að góðri áningu.“ Hann bætir því við að þetta sé veganesti sem hann muni taka með sér. „Því menning er mennska.“

Fátæktin fylgir fólki yfir á þriðja æviskeiðið

Á síðustu árum hefur athygli Viðars beinst að fólki, aðstæðum þess og hlutskipti, sem er á þriðja æviskeiðinu; æviskeiðinu sem líka er kallað eftirlaunaaldur, eldri borgari. „Mér hefur orðið ljóst að alltof stór hluti eldra fólks býr við óásættanleg kjör,“ segir Viðar sem varð 67 ára í sumar. „Flest allir sem fara á eftirlaunaaldur falla í tekjum þeim til lífsviðurværis. Fólk sem hefur haft lítið úr bítum til daglegrar framfærslu og farsældar á öðru æviskeiðinu, fullorðinsárunum, er enn verr sett á þriðja æviskeiðinu.“ Viðar segir að það sorglegasta sé þó að sjá að einu sinni voru þetta einmitt börnin sem á sínum tíma festust í fátæktargildrunni.

Ég vil jöfnuð í samfélag okkar og vinna fyrir jaðarsett fólk; fólk sem hefur ekki aðgengi að ræðustól og bakherbergjum; fólk sem nýtur ekki fullra mannréttinda; fólk sem er dæmt til fátæktar

Viðar Eggertsson 3. sæti í Reykjavík suður

Fólkið sem gleymist í Excel-skjalinu

Hann telur að það sem valdi einkum fátækt meðal eldri borgara sé alltof lágur ellilífeyrir frá almannatryggingum og síðan óhóflegar skerðingar á honum vegna t.d. lífeyristekna. „Þetta bitnar harðast á þeim verst settu, neðstu þremur tekjutíundunum,“ segir Viðar og bætir við að konur séu í miklum meirihluta þessa fólks, því margar af þeim hafi framfleytt sér á lágum tekjum á starfsferli sínum. „Starfsferill sem einnig hefur verið stopull vegna ólaunaðrar ábyrgðar á heimili og börnum,“ heldur Viðar áfram og útskýrir að þær eigi því rýran lífeyrissjóð. „Í núgildandi lögum um almannatryggingar gleymdist þetta fólki í fína excel skjalinu.“

Vill skapa ánægjulegt ævikvöld 

Á allra síðustu árum hefur Viðar starfað sem verkefnastjóri einstakra verkefna fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík, Landssamband eldri borgara og Gráa herinn.  „Ég lít á þessi störf mín sem starfsþjálfun fyrir þriðja æviskeiðið,“ segir Viðar sem vill búa þannig í haginn fyrir alla hina: „Að þeir eigi ánægjulegt ævikvöld.“

Úr fjölskyldualbúminu...

  • Á hund og herrasetur
    Sveinn og ég felldum hugi fyrir tuttugu og einu ári síðan. Hann var búinn að vera að gefa mér undir fótinn en ég hafði ekkert tekið eftir honum. Á myndinni erum við með Drakúla heitnum, á Herrasetrinu Skurn - sem er heimilið okkar. Það er herrasetur, því þar búa bara karlmenn.
  • Í of stórum jakka
    Þessi mynd af mér og Björk, tvíburasystur minni, er tekin á jólunum þegar við vorum um fimm ára. Ég man að kjóllinn hennar var lillalitaður og ég var í eldrauðum flauelsjakka sem var auðvitað vel við vöxt. Mæður á þessum tíma vildu ekki að börnin yxu strax úr fötunum.
  • Tók ástfóstri við sviðið 11 ára gamall
    Ég var 11 ára þegar ég fór að sjá tvo einþáttunga, sem sýndir voru í gestasýningu frá Þjóðleikhúsinu á rigningarkvöldi í Njarðvíku. Þetta voru leikverk í stíl absúrdisma og ekki ætluð fyrir börn. En ég heillaðist gjörsamlega. Þarna er ég á sviði með Kristínu Önnu Þórarinsdóttur í leikritinu Ella. Í verkinu var ég ungur maður sem er að leika móður sína, sem er þögull karakter. Þetta varð síðasta verk Kristínar.

Nokkrar laufléttar...

  • Þegar ég var fimmtán ára gamall vann ég við færibandið í frystihúsi á Akureyri. Allan daginn var ég einn og fæturnir á mér soðnuðu í gúmmístígvélunum. Það varð mér til lífs að ég hafði nýlært Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum, sem er 158 erindi í 25 köflum. Það er kannski eins gott að ég var einn, því ég er vitalaglaus. En eins og með margt sem maður lærir þegar maður er ungur, þá kann ég þetta enn.

  • Hún væri úr fersku kornbrauði, smurðu dijon sinnepi, með fersku jöklasalati og þunnum sneiðum af graflaxi. Og allt saman svo toppað með graflaxsósu með dilli.

  • Hamingjan felst í að ganga berfættur á bjartri sumarnótt á svörtum Breiðamerkursandi.

Starfsferill

Leikstjórn

  • Sannar sögur af sálarlífi systra leikgerð Viðars úr skáldsögum, höfundur þeirra: Guðbergur Bergsson, Þjóðleikhúsið 1994. Menningarverðlaun DV 1995 fyrir leikgerð og leikstjórn.
  • Kaffi, höfundur: Bjarni Jónsson, Þjóðleikhúsið 1998 (boðið á Bonner Biennale 1998).
  • Hægan, Elektra höfundur: Hrafnhildur Hagalín, Þjóðleikhúsið 2000 (tilnefning Menningarverðlaun DV. Boðið á Norræna leiklistardaga 2002)
  • Shopping & Fucking höfundur: Mark Ravenhill, EGG-leikhúsið 2000.
  • Öndvegiskonur höfundur: Werner Schwab, Borgarleikhúsið 2001.
  • Laufin í Toscana höfundur: Lars Norén, Þjóðleikhúsið 2001.
  • Túskildingsóperan höfundar: Bertolt Brecht og Kurt Weill, Nemendaleikhúsið 2001. Menningarverðlaun DV 2002 fyrir þrjár síðastnefndu sýningarnar, Öndvegiskonur, Laufin í Toscana og Túskildingsóperuna
  • Þið munið hann Jörund, höfundur: Jónas Árnason, Leikfélag Selfoss 1984 (tvenn verðlaun á leiklistarhátíð í Dundalk á Írlandi: sýningin og besti karlleikari í aukahlutverki). -
  • Smáborgarabrúðkaup, e. Bertolt Brecht, Leikfélag Selfoss 1997 (valin Áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins og sýnd í Þjóðleikhúsinu 1997).
  • Sálir Jónanna ganga aftur, e. Hugleikara, Hugleikur 1998 (boðid á leiklistarhátíðir í Noregi, Litháen og Færeyjum 1998-99).
  • Hvenær kemurðu aftur raudhærði riddari? e. Mark Medoff, Leikfélag Hafnarfjarðar, 2000 (verðlaun: besta leikkona í aðalhlutverki á Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga, 2000).
  • Vilhjálmur og Karitas, höfundar: Sigurður Valgeirsson og Sveinbjörn I. Baldvinsson, 1984-85.
  • Fastir liðir eins og venjulega (aðstoðarleikstjóri Gísla Rúnars Jónssonar), höfundar: Edda Björgvinsdóttir og Helga Thorberg, 1985
  • Vilborg í gluggaröð, höfundar: Sigurður Valgeirsson og Sveinbjörn I. Baldvinsson
  • Á jólaróli, höfundur: Iðunn Steinsdóttr, 1987.
  • Íslensk þrá - tveir sjónvarpseinleikir, eftir Guðberg Bergsson, 2000.

Önnur störf í leikhúsi

  • Stofnandi og aðaldriffjöður EGG-leikhússins frá stofnun þess 1981.
  • Leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá vori 1993 til ársloka 1995. Ráðinn þá sem leikhússtjóri hjá Leikfélag Reykjavíkur og sinnti því í nokkrar vikur.
  • Leikhússtjóri Útvarpsleikhússins á RÚV, 1. janúar 2008 - 1. desember 2015.
  • Skrifað nokkrar leikgerðir fyrir svið og útvarp.
  • Ritstjóri leikskráa fyrir Alþýðuleikhúsið, EGG-leikhúsið og Leikfélag Akureyrar.
  • Gert leikmyndir fyrir sumar sýningar sínar í áhugaleikhúsum, sem og fyrir Alþýðuleikhúsið og EGG-leikhúsið.
  • Stundakennari við Háskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands, Leiklistardeild LHÍ og Leiklistarskóla Bandalagsins.

Önnur starfsreynsla

  • Höfundur hundruða útvarpspátta fyrir Ríkisútvarpið.
  • Höfundur greina og viðtala fyrir dagblöð og tímarit.
  • Stundakennari í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands.
  • Stundakennari í leiklist við Listaháskóla Íslands
  • Skrifsstofustjóri LEB - Landssamband eldri borgara
  • Verkefnastjóri fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík, Gráa herinn og LEB - Landssamband eldri borgara
  • Ýmis störf til sjós og lands á yngri árum.

Helstu trúnaðarstörf

  • Meðstjórnandi í stjórn FEB - Félags eldri borgara í Reykjavík 2020 -
  • Fulltrúi FEB í Öldungaráð Reykjavíkurborgar 2020 -
  • Í ritnefnd LEB blaðsins 2020 -
  • Í stjórn Menningarsjóðs Félags leikstjóra á Íslandi 2020 -
  • Formaður stjórnar Leiklistarsjóðs Þorsteins Ö Stephensen við RÚV 2015 -
  • Ritari og síðan forseti Sviðslistasambands Íslands 2002 - 2009
  • Ritari og síðan formaður Félags leikstjóra á Íslandi 2002 - 2008
  • Í stjórn og síðar sérstakur ráðgjafi stjórnar Alþjóða leikhúsmálastofnunarinnar, The International Theatre Institute ITI 2002 - 2009
  • Í stjórn Norðurlandahússins í Færeyjum
  • Í stjórn NTU, Norræna leiklistarsambandsins
  • Í stjórn Samtakanna 78
  • Dagskrárnefnd Listahátíð 2002 og 2004
  • Í stjórn Íslenska dansflokksins
  • Í stjórn Félag íslenskra leikara