Zoom

Stefnumót með frambjóðanda - Kristrún Frostadóttir

Kristrún fréttabanner

Stefnumót með frambjóðendum – spurt og spjallað?

Hver er uppáhaldsmatur Kristrúnar? Fyrir hverju brennur hún?

Þetta og margt margt fleira færðu að vita ef þú sest við skjáinn á næstu dögum til að kynnast frambjóðendum okkar í þremur efstu sætunum í Reykjavíkurkjördæmunum suður og norður.

„Samfylkingin á að stíga fast til jarðar og af öryggi í efnahagsmálum og endurskilgreina hvað felst í ábyrgri efnahagsstjórn er taki mið af áskorunum framtíðarinnar og kröfum um öflugt velferðarsamfélag sem stuðli að jafnrétti og jöfnum tækifærum.“ - Kristrún Frostadóttir.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík býður til rafrænna stefnumóta með þeim Jóhanni Páli, Helgu Völu, Kristrúnu, Dagbjörtu, Viðari og Rósu Björk núna í byrjun maí sem hér segir:

Kristrún Frostadóttir

Hagfræðingur.

Fædd 1988, gift Einari B. Ingvarssyni, dóttir okkar er María Herdís (f. 2019).

Starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka. Er með framhaldsmenntun í hagfræði frá Boston háskóla og í alþjóðafræðum með áherslu á hagstjórn frá Yale háskóla í Bandaríkjunum. Hef starfað sem efnahagsgreinandi í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Íslandi.

Bý á Háaleitisbraut, 108 Reykjavík.

„Samfylkingin á að stíga fast til jarðar og af öryggi í efnahagsmálum og endurskilgreina hvað felst í ábyrgri efnahagsstjórn er taki mið af áskorunum framtíðarinnar og kröfum um öflugt velferðarsamfélag sem stuðli að jafnrétti og jöfnum tækifærum.“

---

Efnahagsmál verða í brennidepli í næstu kosningum. Staða ríkisfjármála hefur gjörbreyst á nokkrum mánuðum. Nú reynir á djúpan skilning á eðli þess efnahagsvanda sem við er að etja og mikilvægt að umræðan snúist ekki um úreltar lausnir á sviði ríkisfjármála. Sú mýta er lífsseig í íslenskri stjórnmálaumræðu að þeir einir geti sýnt ábyrgð í efnahagsmálum sem eru kirfilega til hægri á hinu pólitíska litrófi. Þessa mýtu þarf að kveða niður. Framlag hins opinbera er alltof oft talað niður líkt og það sé eðli þess að vera fyrir og öll verðmætasköpun eigi sér stað í einkageiranum. Á sama tíma má greina tilhneigingu úr annarri átt til að tortryggja heilbrigðan fyrirtækjarekstur, öfluga samkeppnismarkaði og alþjóðaviðskipti. Þessi pólarísering, eða skautun, er skaðleg. Hvoru aflinu á að beita af meiri krafti hverju sinni, einkaframtakinu eða hinu opinbera, fer eftir aðstæðum og markmiðum hverju sinni. Þetta er grundvallaratriði sem sósíaldemókratar átta sig á.

Samfylkingin þarf að skerpa á áherslum sínum í efnahagsmálum fyrir næstu kosningar og sýna almenningi fram á að flokkurinn geti verið leiðandi í ábyrgri hagstjórn. Til þess þarf að ræða hvað felst í ábyrgri hagstjórn, en skilgreining á þessu hugtaki hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Það hefur gerst með tilkomu fjölda nýrra rannsókna sem kollvarpa ýmsum kennisetningum sem hafa verið áberandi undanfarna áratugi og alltof sjaldan er tekið mið af í innlendri efnahagsumræðu. Sterkt samband er á milli heilbrigðs efnahagslífs og þeirra velferðarmála sem jafnaðarmenn standa vörð um. Því þarf að koma rækilega til skila að valið stendur ekki á milli gilda jafnaðarmanna og sterkrar efnahagstjórnar. Vöxtur sem eykur hag allra en ekki fárra er grundvallarforsenda betri lífskjara.

Ég vil nýta þekkingu mína á efnahagsmálum samfélaginu til góðs og vil tala tæpitungulaust. Almenning þyrstir í hreinskipta umræðu um efnahagsmál sem er laus við frasa og yfirborðskennt þras, og sem byggir á greiningum á grunni bestu þekkingar. Víða má merkja óþol á stjórnmálum meðal fólks sem vill alvöru samræður og skilning. Ungt fólk stendur þar framarlega í flokki. Samfylkingin burðast ekki með úreltar hugmyndafræðilegar kreddur um efnahagsmál og hefur því tækifæri til að eiga opið samtal við almenning.

Samfylkingin hefur þannig alla burði til að ná til breiðs hóps með skýrum áherslum í efnahags- og velferðarmálum. Við þurfum að móta trúverðuga áætlun, á grundvelli bestu upplýsinga, um það hvernig við viljum stjórna landinu og hrinda henni í framkvæmd. Ég hef mikla trú á að Samfylkingin geti orðið kjölfesta í íslensku samfélagi líkt og systurflokkar hennar á Norðurlöndum. Ég er boðin og búin að taka þátt í þeirri vegferð.