Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Við eigum ekki að vera eftirbátur nágrannaþjóðanna í loftslagsmálum heldur eiga íslensk stjórnvöld að hafa metnað til að verða í fremstu röð.

Nýja nálgun á áskoranir tengdar loftslaginu

Við ætlum að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sókn sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: Raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Málið er svo mikilvægt. Og þetta er hægt, þetta er raunhæft og þetta er aðkallandi – en til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins.

Nú þarf pólitíska forystu um réttlát og sjálfbær umskipti í íslensku atvinnulífi, hraðari orkuskipti og metnaðarfulla græna uppbyggingu um allt land

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

  • Loftslagsmarkmið Lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
  • Græn umskipti Móta nýja og miklu metnaðarfyllri aðgerðaáætlun, tryggja fjármagn í réttláta og sjálfbæra umbreytingu, byggja upp sterka og skilvirka loftslagsstjórnsýslu og fjölga hvötum til grænna umskipta.
  • Samgöngur Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og flýta Borgarlínu og öðrum loftslagsvænum framkvæmdum í samgönguáætlun. Byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um Ísland án einkabíls.
  • Hjólreiðar Gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og gera átak í lagningu hjólastíga um allt land.
  • Orkuskipti Hraða orkuskiptum í samgöngum: Fjölga hleðslustöðvum um allt land, rafvæða bílaleiguflotann með skattalegum hvötum og markvissri uppbyggingu hleðsluinnviða. Afnema skattaafslátt vegna kaupa á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.
  • Græn fjárfesting Stofna grænan fjárfestingarsjóð að norrænni fyrirmynd. Hann verður í eigu hins opinbera og starfar með einkafjárfestum að uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi.
  • Landbúnaður Ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu án þess að draga úr stuðningi við bændur, með því að hætta að skilyrða styrki við framleiðslu á kjöti og mjólk en styðja loftslagsvæn verkefni, sjálfbæra matvælaframleiðslu og kolefnisbindingu með breyttri landnotkun, svo sem endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt.
  • Höf og hafnir Banna alfarið flutninga og notkun svartolíu í íslenskri landhelgi, rafvæða hafnir og leggja bann við olíuborun í efnahagslögsögunni.
  • Kolefnisförgun Styðja markvisst við tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar.
  • Alþjóðasamstarf Taka upp græna utanríkisstefnu og nýta sérstöðu Íslands og forskot í orkumálum til að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð fyrir rannsóknir og þróun lausna í loftslagsmálum.
  • Og alls konar fleira! Samfylkingin hefur mótað 50 aðgerðir sem flokkurinn vill hrinda í framkvæmd, fáum við umboð til þess. Kíktu á þær með því að smella á hlekkinn hér að neðan:
    Vefsíða: xs.is/loftslag

Hlaða niður stefnu

Viltu skoða stefnuna á PDF? Gjörðu svo vel!

Hlaða niður á PDF