Bjarnveig Birta Bjarnadóttir - 3. sæti

Kæra jafnaðarfólk
Ég heiti Bjarnveig Birta Bjarnadóttir, alltaf kölluð Birta, og býð mig fram í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Ég er 33 ára rekstrarstjóri og þriggja barna móðir úr Grafarvogi.
Ég bý í Rimahverfi Grafarvogs með manninum mínum Pétri Frey Sigurjónssyni og börnunum okkar sem eru 2, 5 og 6 ára gömul. Ég hef starfað sem rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtækið Tulipop undanfarin ár og er menntuð í viðskiptafræði ásamt stjórnun og stefnumótun. Ég ólst upp í Breiðholti með foreldrum mínum sem voru aðeins 16 ára þegar þau áttu mig. Við bjuggum í verkamannabústöðum hjá ömmu minni á meðan foreldrar mínir unnu láglaunastörf og sóttu sér menntun.
Ásamt því að vera stoltur fulltrúi úthverfanna hef ég þann heiður að vera fulltrúi ungs fólks. Ég sigraði í forprófkjöri Ungs jafnaðarfólks, ásamt Stein Olav, þar sem mörg hundruð ungmenni á aldrinum 16-35 ára greiddu mér atkvæði. Ég er þakklát fyrir þennan stuðning en verkefnið er stærra – og nú stefni ég í borgarstjórn fyrir hönd ungs fólks.
Ég ætla að berjast fyrir barnafjölskyldur
Sem móðir þriggja ungra barna þekki ég af eigin raun þær áskoranir sem barnafjölskyldur í borginni standa frammi fyrir. Á íbúðamarkaði, í leikskólum og í brasinu frá degi til dags. Ég veit hvað þarf til að auðvelda daglega lífið og ég ætla að berjast fyrir barnafjölskyldur í borgarstjórn.
Byggjum meira og hraðar. Sköpum rétta hvata fyrir verktaka og tryggjum fjölbreytt framboð af húsnæði svo að barnafjölskyldur geti komið þaki yfir höfuðið og stækkað við sig þegar þörf er á. Bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar er óviðunandi fyrir foreldra, sérstaklega þá sem þurfa að vinna mikið og eru með minna milli handanna. Bætum starfsaðstæður í skólunum okkar, lögfestum leikskólastigið og stöndum með foreldrum.
Ég ætla að passa upp á reksturinn
Sem rekstrarstjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu Tulipop hef ég reynslu af því að passa upp á hverja krónu og velta við öllum steinum í rekstrinum. Tulipop er nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir hágæðaefni fyrir börn á íslensku.
Ég veit hvað þarf til að láta dæmið ganga upp. Það er ekki hægt að fara í öll verkefni, markaðsherferðir og vöruþróanir. Verum óhrædd við að forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi.
Fjármagnið verður að nýta þar sem það raunverulega hefur áhrif. Hjá borginni eru ferlar orðnir flóknir og skriffinnska mikil. Það verður að vinda ofan af þessari þróun í þágu skilvirkni og velferðar borgarbúa.
Ég mun efla hverfi Reykjavíkur
Sem Breiðhyltingur sem býr núna í Grafarvogi þá get ég með sanni sagt að ég elska úthverfin okkar. Og ég vil beita mér fyrir því að Samfylkingin verði sterk í öllum hverfum borgarinnar og vinni að því að gera þau líflegri og eftirsóknarverðari.
Styrkjum hverfin með því að bæta grænu svæðin með leikvöllum og gróðri, efla Strætó og þjónustu í nærumhverfi. Sköpum hvata til að hefja fjölbreyttan rekstur inni í hverfunum samhliða því sem við lyftum sérkennum hverfanna.
Kjósum Birtu í borgina
Ég hvet þig til að skoða vefsíðuna mína bjarnveigbirta.is en þar má sjá greinar eftir mig, meðmæli, önnur málefni og fleira.
Ég vil taka þátt í að gera góða borg enn betri með því að berjast fyrir barnafjölskyldur, passa upp á reksturinn og efla úthverfin. Samfylkingin getur unnið glæsilegan sigur í borgarstjórnarkosningum vor. Jafnaðarstefnan stendur fyrir sínu og margt hefur gengið vel. En við þurfum ný augu, skýra forgangsröðun og fólk sem þekkir vandamálin af eigin raun. Ég óska eftir þínum stuðningi í 3. sæti.
Kjósum Birtu í borgina!