Dóra Björt Guðjónsdóttir - 3. - 4. sæti

Ég heiti Dóra Björt, bý í Grafarvoginum, er 37 ára gömul og á tvö ung börn í leik- og grunnskóla.
Bý ég yfir víðtækri reynslu úr borgarmálunum eftir að hafa þjónað borgarbúum síðan 2018 sem borgarfulltrúi, oddviti og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og formaður borgarráðs. Nú gegni ég hlutverki formanns stafræna ráðsins og er stjórnarformaður Sorpu bs. en hef áður verið stjórnarformaður Strætó bs. Þá hef ég starfað sem varamaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ég er menntuð í heimspeki- og alþjóðafræðum við Háskólann í Osló og við Freie Universität i Berlín. Árin áður en ég kom inn í pólitíkina starfaði ég sem framkvæmdastjóri Stúdentaþings Oslóarháskóla þangað til 2016 þegar ég flutti til baka til Íslands. Í kjölfarið starfaði ég á Evrópuþinginu í Brussel sem starfsnemi fyrir Evrópuþingmann á árinu 2017 og eftir heimkomu stundaði ég meistaranám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands 2017 - 2018. Ég hef beina reynslu af störfum innan stofnana sveitarfélaga í leikskólum, á söfnum, við kennslu í grunnskóla og sem aðstoðarkona fyrir fatlaðan mann.
Ég er alin upp í Elliðaárdalnum en bjó lengi vel erlendis við nám og störf í Osló, Berlín og Brussel. Það hafði mótandi áhrif á mig og sýndi mér hve ómetanlegt það er að búa í öflugu velferðarsamfélagi. Samfélagi sem er fjölskylduvænt og barnvænt og hleypir þér af hamstrahjólinu í gæðastundir með fólkinu sem þú elskar, samfélagi sem tekur vel utan um fólk.
Ég upplifði líka þau lífsgæði á eigin skinni að geta tekið strætó og lestir, hjólað eða gengið allra minna leiða á einfaldan og þægilegan hátt. Þar sem borgin er skipulögð í kringum þessa innviði með verslun og þjónustu í göngufæri. Það auðveldar lífið, bætir heilsu og eykur vellíðan, það sparar þér peninga, bætir loftgæðin og skapar skemmtilegan borgarbrag þar sem fólk hittist meira og tengist meira. Þetta er framtíðin hér í Reykjavík með tilkomu Borgarlínunnar og það skiptir máli að standa með þeirri heildarsýn sem verkefnið gengur út á.
Ég vil framsækið og nýskapandi menntakerfi þar sem við tökum mið af einstökum þörfum hvers og eins og hlúum að bæði nemendum og starfsfólkinu okkar. Lykilatriði er að einfalda fjölskyldum lífið og mæta brýnni þörf fyrir leikskólapláss en þar skiptir miklu máli að mæta manneklunni og styðja við heilsueflingu starfsfólks með því að bæta starfsaðstæður, enda ekki hægt að fjölga plássum nema nægt starfsfólk fáist.
Aukinheldur vil ég nýta lýðræðislegar aðferðir þar sem við hlustum á fólk vegna þess að fólk þekkir sitt umhverfi og þjónustuþarfir best. Þá vil ég halda áfram að nútímavæða þjónustu borgarinnar eins því það sparar auðlindir, tíma og fé. Ég tala fyrir hagkvæmni og skynsömum rekstri til að eiga fyrir því sem skiptir máli.
Reykjavík er leiðandi við uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis og það hefur temprað leigumarkaðinn. Heilbrigður húsnæðis- og leigumarkaður, húsnæði fyrir ungt fólk og fjölbreyttar lausnir eins og kjarnasamfélög (co-housing) er allt eitthvað sem ég hef unnið að og held áfram að berjast fyrir.
En það skiptir líka máli hvernig hlutirnir eru gerðir. Gæði við uppbyggingu og þróun borgarinnar, birta í húsnæði, gróður og aðlaðandi umhverfi er engin aukastærð heldur aðalatriði. Þess vegna beitti ég mér fyrir tillögu minni um gerð borgarhönnunarstefnu og leiddi þá vinnu en stefnan var loksins samþykkt í haust og er fyrsta stefna sinnar tegundar.
Ég læt verkin tala. Ég er kraftmikil, með metnað og eldmóð. Ég er með reynslu sem skiptir máli enda verður að tryggja góða blöndu af reynslu og endurnýjun á lista í ljósi þess að þrír fulltrúar eru nú að hætta störfum.
Ég vonast eftir stuðningi þínum í 3. - 4. sætið á lista.
Hlýjar kveðjur,
Dóra Björt