Eldhúsdagur: Logi Einarsson
Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi þann 29. maí 2017. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, talaði fyrir hönd Samfylkingarinnar ásamt Guðjóni S. Brjánssyni.
Ræða Loga í fyrstu umferð:
Frú forseti. Það er vissulega forvitnilegt fyrir nýjan þingmann að horfa um öxl og gera upp þingveturinn.
Það var súrt að ekki skuli hafa tekist að mynda stjórn um kerfisbreytingar: Réttláta meðferð auðlinda, nýja stjórnarskrá og framtíðar tilhögun peningamála, sem tryggði jafnari lífskjör og stöðugra efnahagslíf.
Og það var skúffandi og um leið ótrúlegt sjá flokka, sem fyrir kosningar töluðu fyrir slíkum málum, henda loforðum sínum í ruslið í skiptum fyrir fáein misseri í ríkisstjórn.
Stærstu vonbrigðin eru þó að horfa upp á fullkomið skilningsleysi gagnvart þeim sem minnst hafa milli handanna, svik á stórfelldri uppbyggingu innviða og algjört metnaðarleysi þegar kemur að því að búa okkur undir þær stórkostlegu breytingar á atvinnuháttum sem eru handan hornsins.
Við megum ekki festast í viðbragðs stjórnmálum þar sem metnaðurinn snýst aðeins um það að lágmarka tjónið þegar skaðinn er skeður.
Frú forseti, samfélag okkar stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gjörbreyta þjóðfélaginu.
Nýja iðnbyltingin er að þessu leyti frábrugðin þeim fyrri að nú mun tæknin ekki eingöngu leysa vöðvaafl af hólmi, heldur líka hugaraflið að einhverju marki. Gervigreindin gefur vélum áður óþekkta hæfni.
Þær eru farnar að hlusta, tala og skilja. Þurfa ekki daglega stjórn frá mönnum til að leysa flókin og margbreytileg verkefni. Störf sem bæði háskólamenntaðir og minna menntaðir sinna í dag munu hverfa. Þótt tæknin hafi verið í stöðugri þróun er ýmislegt sem bendir til þess að í hinum stafræna, vel tengda heimi, munu þessar breytingar gerast á ógnarhraða; hraðar enn nokkru sinni áður .
Þessi nýi veruleiki gefur okkur tækifæri til meiri samskipta við fjölskyldu, vini og auknar frístundir. Þá felast í honum miklir möguleikar fyrir mannkynið allt: Jafnari skipting gæða milli ríkari og fátækari hluta heimsins, vistvænni framleiðsla og mikilvæg viðbrögð við loftlags vánni.
Sem sagt: friðsælli og betri heimur.
Að honum geta stafað ógnir. Það þarf að kortleggja hvaða störf breytast, tapast og hvað ný störf verða til. Hindra þarf að hagnaður slíkrar hagræðingar endi allur hjá þeim sem eiga fyrirtækin. Slíkt mundi leiða til enn meiri misskiptingar og gera okkur vanmáttug til að standa undir almannaþjónustu.
Menntun er lang mikilvægasti undirbúningur okkar fyrir slíka framtíð. Skapandi hugsun og tölvufærni mun verða lykilþáttur í þróun atvinnulífsins.
Ekkert í stefnu stjórnarinnar mætir þessu:
Framlag til framhaldsskóla, háskóla og nýsköpunar eru í engu samræmi við það sem þau þyrftu að vera. Áfram verða íslenskir háskólar hálfdrættingar á við það systurskóla sína Norðurlöndunum.
Loforð um að framhaldsskólarnir njóti hagræðingar vegna styttingar þeirra var svikið. Fleiri hundruð milljónir verða hrifsaðir úr skólunum á næstu árum. Komið hefur í ljós að hér var um sparnaðaraðgerð að ræða en ekki áform um að bæta skólastarf í landinu.
Þegar rætt eru um styttingu náms má spyrja hvort sníða eigi ungu fólki svo þröngan stakk. Er rétt að herða svo að kröfum um námsframvindu að ekki gefist tími til þess að njóta lífsins, sinna tómstundum og prófa sig áfram á þessu mikilvæga þroskaskeiði.
Frú forseti. Ríkisstjórnin hlustar ekki á þjóðina þegar kemur að heilbrigðismálum. Hún hunsar vilja 92. prósenta sem vilja aukna fjármuni í málaflokkinn og skellir skollaeyrum við þeim 86 prósentum sem vilja reka félagslegt heilbrigðiskerfi.
Opinbera heilbrigðiskerfinu er haldið við sultarmörk meðan fjármunir renna ljúflega í einkarekstur, án þess að sýnt sé fram á hagkvæmi slíks. Þar er kraninn opinn. Ríkisstjórnin tilbúinn að borga eftir hendinni þegar læknar í einkarekstri senda reikning en opinberum stofnunum sagt að hagræða.
Landspítalinn er orðinn svo heit kartafla að stjórnin getur ekki haldið á henni. Hún ræður ekki við reksturinn; sér þá einu lausn að setja pólitíska agenta yfir stjórn spítalans til að fela vandræðagang sinn.
Þrátt fyrir þá staðreynd að margt sé vel gert í heilbrigðismálum er æpandi sú staðreynd að þeim fjölgar sem sleppa því að sækja sér læknisþjónustu vegna kostnaðar.
Góðar samgöngur og fjarskipti eru ekki bara spurning um öryggi. Í þeim felst jöfnun búsetuskilyrða og mikilvægur stuðningur við atvinnuuppbyggingu. Það er ótækt að ekki sé staðið við þau loforð sem allir flokkar gáfu fyrir kosningar.
Sú uppbygging er einmitt fyrirtaksleið til að huga að hinu smáa í atvinnulífinu. Slík uppbygging gagnast alls staðar, ekki síst smáum fyrirtækjum. Þannig, erum við líklegust til að styrkja byggðir landsins; reisa þeim öflugar stoðir og glæða lífi.
Örvun smáfyrirtækja hefur ótvíræða kosti: Uppbyggingin er ódýr, áhættulítil, þarfnast lítillar yfirbyggingar og gerist hægt eða hratt, eftir smekk, vilja eða nauðsyn. Fólk getur starfað við það sem hugurinn girnist, hvar sem er. Fyllt líf sitt af meiri hamingju, sem er gott fyrir fjölskyldulífið, smitar út í samfélagið og styrkir byggðirnar.
Það þarf að ráðast í framkvæmdir strax og skjóta rótum undir ferðaþjónustu um allt land.
Eina ráð ríkisstjórnarinnar er að selja mikilvægar og vel reknar einingar, s.s. Keflavíkurflugvöll, til að fjármagna uppbygginguna.
Sama vitleysa birtist líka í áformum um einkavæðingu Fjölbrautaskólans í Ármúla. Stjórnin ræður illa við ríkisreksturinn. Hún er föst í gömlum hægri tuggum sem ekki hafa staðist tímans tönn.
Sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að aukinn jöfnuður sé farsælasta leiðin til að skapa kraftmikið samfélag velsældar og friðar. Það er því óþolandi að ríkisstjórnin noti ekki skattkerfið og markaðstengd auðlindagjöld til þess að auka jöfnuð og gefa öllum tækifæri til þátttöku.
Í fjármálaáætlun er meira að segja fullyrt að skattlagning sé andstæða frelsis.
Hvaðan kemur sú undarlega hugmynd frú forseti?
Samneyslan skapar þvert á móti flestum landsmönnum frelsi. Hún tryggir stærstum hluta almennings áhyggjulítið og innihaldsríkt líf. Við gætum þó með sanngjarnara skattkerfi gert enn betur. Hægt væri að tryggja öllum betri skólagöngu, ódýrari heilbrigðisþjónustu, áhyggjulaust ævikvöld og margvísleg önnur lífsgæði. Án samneyslunnar væru flest okkar illa varin fyrir stórum áföllum sem henda flesta einhvern tímann á ævinni.
Því fullyrði ég á móti: Skattgreiðslur eru skynsamlegasta fjárfesting langflestra Íslendinga á ævinni.
Í samneyslunni birtist það fallegasta í mannlífinu; samkennd og samhjálp.
Með aukinni velsæld landsins hafa viðmið fyrir það sem er nauðsynlegt breyst. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman og við sættum okkur ekki lengur við að eiga eingöngu til hnífs og skeiðar og öruggt húsaskjól. Við þurfum líka fóður fyrir andann. Því verða stjórnvöld líka að hafa metnað fyrir hönd íþrótta, menninga og lista. Ekki líta á þær sem einhvern lúxusvarning eða afgangsstærð.
Öll börn og unglingar eiga að hafa aðgang að þeim óháð efnahag foreldra.
Frú forseti, saman komumst við á lappir eftir hrunið á undra skömmum tíma. Það er ekki síst að þakka stórkostlegum fórnum almennings. Enn súpa þó alltof margir seyðið af því. Við erum á leið upp úr öldudal en alltof margt fólk er enn í lágbárunni og á langt í land. Við þurfum nú öll að hjálpast að; við megum ekki skilja neinn eftir.
Það er aumt til þess að vita að á einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði landsins, sé ekki svigrúm til þess.
Og umfram allt þurfum við að haga okkar efnahagsstjórn með þeim hætti að við siglum lygnari sjó. Við þurfum að viðurkenna að félagslegur stöðugleiki er ekki andstæða efnahagslegs stöðugleika og hvort tveggja forsenda þess að hér verði ró á vinnumarkaði.
Þá þurfum við ræða gjaldmiðlastefnu landsins af yfirvegun og með rökum en ekki neðan úr gömlum skotgröfum.
Við þurfum stjórnvöld sem trúa á mátt samhjálparinnar og þorir að afla tekna hjá þeim sem auðveldlega geta lagt meira að mörkum, í þágu þeirra sem hallari fótum standa og samfélagsins alls. Sem nýtir hinn frjálsa markað þar sem við á en stendur þéttan vörð um mikilvæga almannaþjónustu.
Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hefur meiri framsýni og kjark.
Ræða Loga í þriðju og síðustu umferð:
Frú forseti, nú þegar dagarnir eru hvað lengstir horfa flestir landsmenn fram á sumarfrí í faðmi fjölskyldunnar. Og ef íslenskir stjórnmálamenn hefðu virkilega ráðið við hlutverk sitt, gerðu allir landsmenn þessa ríka lands það með tilhlökkun.
Þannig er það þó því miður ekki.
Um þessi mánaðamót munu þúsundir Íslendinga horfa í gaupnir sér og velta áhyggjufullir fyrir sér næstu dögum og vikum. Taka ákvörðun um hvort borga eigi reikninga, veita börnunum tómstundir í sumar eða greiða fyrir læknisþjónustu.
Þúsundir barna munu ekki upplifa drauma sumarfríið sem við betur stæðir foreldrar getum veitt okkar börnum. Þessi börn munu þó líklega ekki hafa orð á neinu. Börn eru merkilega þroskuð. Flest munu þau bera harm sinn í hljóði og hlífa foreldrum sínum við þeim áhyggjum. En á huga margra þeirra mun þó eflaust leita þessi nagandi spurning: Af hverju hún, af hverju hann? Af hverju ekki ég?
Frú forseti. Við fimm til sex ára aldurinn gerist svolítið ótrúlega fallegt og mikilvægt í þroskaferli barnsins. Það byrjar að finna til samúðar með öðrum. Það lærir að setja sig inn í aðstæður annara; finna til með öðrum. Hver hefur ekki reynt að hugga óstöðvandi grát barns þegar það skynjar sorglega atburðarrás í teiknimynd eða barnabók?
Þegar við fullorðnumst öðlumst við hæfileika til að setja hluti í samhengi , horfa á heildarmynd hlutanna en líka að hugsa abstrakt og brynja okkur fyrir tilfinningum gagnvart einstökum atburðum. Þá grípum við gjarnan til þess að réttlæta alla mögulega og ómögulega hluti út frá heimi meðaltalsins og vístölunnar.
En frú forseti, við lifum ekki í þannig heimi, öll erum við af holdi og blóði. Fólk sem á rétt til þess að lifa með reisn.
Þótt almenn lífskjör Íslendinga hafi batnað gríðarlega og ójöfnuður sé minni en víðast hvar er markmiðum okkar hvergi náð. Það verður að vera stefna okkar að skapa samfélag þar sem allir eru þátttakendur. Hver á sínum forsendum þó.
Ísland er nógu ríkt land og auðugt af auðlindum til að hægt sé að tryggja öllum ásættanleg kjör. Til þess þarf að jafna gæðunum réttlátar og deila byrðum eftir getu hvers og eins.
Við getum auðvitað aldrei blandað pólitíska mixtúru sem gerir alla ánægða og hamingjusama; komið í veg fyrir sjúkdóma eða jafnvel mannlega breyskleika. En við getum tryggt öllum öryggi og mannsæmandi kjör.
Meðaltölin fletja ekki bara út veruleikann heldur draga athygli okkar stundum frá vanda sem við er að etja. Þau geta jafnvel leitt umræðu á villigötur.
Nýverið birti menntamálastofnun tölfræði sem sýndi að nemendur á höfuðborgarsvæðinu stæðu sig betur í samræmdum prófum en börn utan af landi. Draga mátti jafnvel þá ályktun að börn landsbyggðarinnar væru verri námsmenn og hefðu vanhæfari kennara. Eflaust eru einhverir skólar í fámenninu vanbúnari og i verri færum. En þegar niðurstöðurnar eru krufnar betur má sjá að einkunnir ráðast fremur af félagslegri stöðu barns en búsetu þess. Þau börn sem búa við lakari félagsleg skilyrði, hafa veikara bakland og minni hvatningu, gengur verr.
Til að bregðast við þessum niðurstöðum er því nærtækast að auka jöfnuð, laga búsetuskilyrði, styrkja velferðarkerfið og ráðast gegn fátækt.
Dettur einverjum um í hug að barn efnaðra eða vel menntaðra foreldra sé fætt gáfaðra?
Fyrir þá sem ekki skilja eða viðurkenna þá mannfyrirlitningu sem felst í miklum ójöfnuði er kannski vænlegra að tefla fram efnahagslegum rökum gegn honum.
Vegna breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar þarf framleiðni að aukast eigi okkur að takast að bæta almenn lífskjör. Tæknibyltingin framundan mun kalla á vel menntaða, hugmyndaríka einstaklinga, með mikið frumkvæði. Af þeim ástæðum einum höfum við ekki efni á því að skilja nokkurt barn eftir. Við þurfum að þróa menntakerfi sem mætir ólíkum þörfum hvers og eins; byggja á styrkleikum þeirra í stað þess að hamra á veikleikunum.
Það er sorglegt að ríkisstjórnin geri það ekki að algjöru forgangsatriði að styðja betur við menntakerfið. Í því felst bæði virðingarleysi og skammsýni.