Stytting vinnuvikunnar hjá Akureyrarbæ í fullum gangi

Undirbúningur vegna innleiðingar á styttingu vinnuviku dagvinnufólks hjá Akureyrarbæ er í fullum gangi. Vinnutímanefndir hafa verið skipaðar og hefur undanfarið verið unnið að henni á vinnustöðum bæjarfélagsins. Sett hefur verið upp tímalína fyrir verkefnið en gerir hún ráð fyrir úrbótasamtölum, hugmyndavinnu og að lokum kosningu um tillögur. Miðað er við að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir á morgun, 1. desember. Bæjarráð Akureyrarbæjar tekur svo tillögurnar til umfjöllunar og afgreiðslu í desember.

Hluti vinnustaða Akureyrarbæjar hefur nú þegar lokið þeirri vinnu og verða þær tillögur teknar til afgreiðslu bæjarráðs í vikunni. Hluti vinnustaða er langt komin með verkefnið og munu líklega klára það í næstu viku. Hjá hluta vinnustaða hefur verkefnið reynst flókið í framkvæmd af ýmsum ástæðum, en einnig eru dæmi um álitamál er varða túlkun. Hætt er við því að það geti dregist að fá niðurstöðu í þeim álitamálum og því enn ekki ljóst hvenær niðurstaða mun liggja fyrir á umræddum vinnustöðum. Stefnt er að því að fyrir jól fáist niðurstaða um fyrirkomulag styttingarinnar á öllum vinnustöðum, enda kemur styttingin til framkvæmdar þann 1. janúar n.k. Ef af einhverjum ástæðum næst ekki sameiginleg niðurstaða fyrir þann tíma, þá kemur styttingin engu að síðar til framkvæmdar á tilsettum tíma þ.e. stytting um 13 mínútur á dag miðað við 100% starfshlutfall.

„Einhver dæmi er um að verið sé að vinna með þá hugmynd að innleiðingin verði í nokkrum skrefum þar sem tímaramminn til að skoða vinnufyrirkomulag og fara í umbótasamtöl hefur verið knappur á þeim mikla álagstíma sem verið hefur á vinnustöðum Akureyrarbæjar. Heilt yfir er undirbúningurinn faglegur og markviss, en vinnan ákaflega krefjandi og tímaramminn helst til knappur. Skiljanlega er óheppilegt að þessi vinna komi til viðbótar við það aukna álag sem hefur verið á sumum vinnustöðum vegna kórónuveirufaraldursins. Hins vegar tel ég að starfsfólk Akureyrarbæjar leggi sig af fullum krafti og heilindum fram við þetta mikilvæga verkefni sem vonandi kemur til með að auka lífsgæði starfsmanna Akureyrarbæjar til framtíðar,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.  

Megum við nota Google Analytics og Facebook Pixel til að safna upplýsingum um heimsóknina þína?

Lesa meira