Ný stefna markar tímamót

Ný endurskoðuð stefna Samfylkingarinnar Vinna, velferð og grænt samfélag var í dag birt í heild sinni en hún var samþykkt á flokksstjórnarfundi um helgina.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar sem stýrt hefur vinnunni fyrir hönd flokksins, segir stefnuna marka tímamót. 

„Ég ætla leyfa mér að fullyrða að jafn ítarleg efnahagsstefna hefur ekki komið fram hjá stjórnmálaflokki um langt skeið og stefnan sem þarna birtist í loftslagsmálum er einfaldlega sú metnaðarfyllsta sem íslenskur stjórnmálaflokkur hefur lagt fram. Nú ríkir neyðarástand á íslenskum vinnumarkaði og neyðarástand í loftslagsmálum. Í haust verður kosið um lífskjör og loftslagsmál. Samfylkingin hefur skýra sýn um hvað þarf að gera til að takast á við hvort tveggja og byggir lausnir sínar á grunni norrænnar jafnaðarstefnu sem reynst hefur farsælasta stjórnmálastefnan þegar kemur að því að tryggja hag og velferð almennings,“ segir Heiða.

Stefnan byggir á norrænni jafnaðarstefnu og hefur yfirskriftina Vinna, velferð og grænt samfélag og hefur verið unnin í víðtæku samstarfi almennra flokksfélaga á undanförnum þremur árum undir forystu málefnanefnda.

Stefnuna má finna í heild hér

Samantekt í nokkrum punktum hér:

  • Ný endurskoðuð stefna Samfylkingarinnar samþykkt eftir þriggja ára vinnu og víðtækt samráð.
  • Stefnan byggir á norrænni jafnaðarstefnu og hefur yfirskriftina Vinna, velferð og grænt samfélag. Þetta verða leiðarstef Samfylkingarinnar í kosningum til Alþingis 2021 og til sveitarstjórna 2022.
  • Í ítarlegri og uppfærðri stefnu um efnahags- og atvinnumál er meðal annars áhersla á:
  • Fulla atvinnu sem meginmarkmið í efnahagsstefnu jafnaðarmanna.
  • Framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland allt.
  • Græna uppbyggingu.
  • Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á íslensku velferðarkerfi. Jafnaðarmenn vilja sterka almenna velferðarþjónustu og víðtækar tryggingar sem tryggja mannsæmandi framfærslu þeirra sem lenda í áföllum og fátækt, svo sem vegna atvinnuleysis, örorku eða á efri árum.
  • Grænn þráður er gegnumgangandi og áberandi í stefnunni. Loftslagsstefna Samfylkingarinnar er stórhuga og spilar saman við áætlanir flokksins um efnahagslega endurreisn Íslands í kjölfar kórónukreppunnar.
  • Ungir jafnaðarmenn og málefnanefnd Umhverfis- og loftlagsmála eiga mestan þátt í loftslagsstefnu Samfylkingarinnar.
  • Fleira í endurskoðaðri stefnu Samfylkingarinnar:
  • Nýr kafli um stjórnarfar, ríkisvald og mannréttindi. Samfylkingin gefur engan afslátt af mannréttindum og heldur áfram að draga vagninn á því sviði.
  • Í stefnunni er mikill bálkur um menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri.
  • Vönduð stefna um menningarlíf og skapandi greinar.
  • Samfylkingin er Evrópuflokkur. 
  • Kosið um lífskjör og loftslagsmál næsta haust. Samfylkingin vill mynda ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna um vinnu, velferð og grænt samfélag.

Norræn jafnaðarstefna áfram grunnurinn

Samfylkingin byggir áfram á traustum grunni norrænnar jafnaðarstefnu. Sú stjórnmálastefna hefur getið af sér góð lífskjör almennings á Norðurlöndum og er best til þess fallin að stuðla að jöfnum lífstækifærum allra. Við trúum því að við getum bætt hag alls almennings á Íslandi jafnt og þétt og mótað samfélag okkar í anda grunngilda jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og samstöðu.

 

Vinna, velferð og grænt samfélag

Yfirskrift endurskoðaðrar stefnu Samfylkingarinnar gefur vísbendingu um megináherslur flokksins og þá leið sem jafnaðarmenn boða úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Vinna, velferð og grænt samfélag verða leiðarstef Samfylkingarinnar í kosningum til Alþingis í haust og til sveitarstjórna á næsta ári.

Við viljum beita afli hins opinbera af festu til að fjölga störfum og ráða niðurlögum atvinnuleysis um leið og við gætum þess að tryggja velferð þeirra sem fá ekki vinnu eða geta ekki unnið. Þetta tvennt helst í hendur. Þá viljum við takast á við hamfarahlýnun af mannavöldum með því að ráðast í græna uppbyggingu um land allt af mun meiri metnaði og þunga en núverandi ríkisstjórn hefur gert.

 

Ítarleg stefna í efnahags- og atvinnumálum

Stefna Samfylkingarinnar hefst á ítarlegum og uppfærðum kafla um efnahags- og atvinnumál og þar er að finna skýra sýn á efnahagslega endurreisn Íslands í kjölfar kórónukreppunnar. Kjarninn í efnahagsstefnu jafnaðarmanna er það meginmarkmið að tryggja jafnan fulla atvinnu með ábyrgri hagstjórn og skipulagi á vinnumarkaði.

Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu fyrir Ísland allt með áherslu á vöxt háframleiðnigreina sem byggjast á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu. Stefnan grundvallast meðal annars á grænni uppbyggingu, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og markmiðum um byggðaþróun.

Þá er einnig að finna í stefnu Samfylkingarinnar greinargóða kafla um aukinn jöfnuð, heilbrigðan vinnumarkað, samband vinnu og velferðar, réttlátara skattkerfi, arð af auðlindum í þjóðareigu, líflegri samkeppni, fjármálakerfi sem þjónar almenningi, lýðræðislegra atvinnulíf og svo mætti lengi telja. Skýrt er kveðið að orði um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru, sem er til lengri tíma litið eitt veigamesta hagsmunamál almennings á Íslandi.

 

Sterk almenn velferðarþjónusta og víðtækar tryggingar

Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á íslensku velferðarkerfi. Jafnaðarmenn standa fyrir sterka almenna velferðarþjónustu og víðtækar félagslegar tryggingar gegn áföllum og fátækt, svo sem af völdum atvinnuleysis, örorku eða að loknum formlegum starfsferli. Grafið hefur verið undan hvoru tveggja á Íslandi undafarin ár og nú er nauðsynlegt að snúa vörn í sókn.

Endurskoðuð stefna Samfylkingarinnar er afdráttarlaus í húsnæðismálum og heilbrigðismálum þar sem kallað er eftir kerfisbreytingum og sérstöku átaki gegn undirmönnun. Einnig er sett fram skýr sýn í sérstökum köflum um fátækt, hag barna og foreldra, réttindi fatlaðs fólks, samfélag þar sem er gott að eldast og lýðheilsu, heilsueflingu og forvarnir.

 

Grænn þráður og efnismikil stefna í loftslagsmálum

Í endurskoðaðri stefnu Samfylkingarinnar er gegnumgangandi og áberandi grænn þráður. Samfylkingin vill endurreisa efnahagslífið í landinu og um leið byggja nýjar grænar stoðir undir verðmætasköpun og útflutning framtíðar. Loftslagsógnin er stærsta áskorun mannkyns og við Íslendingar getum lagt mikið af mörkum og nýtt samkeppnisforskot okkar á sviði grænnar orku, án þess kostnaður falli á herðar tekjulægri hópum eða íbúum í dreifðum byggðum umfram aðra.

Loftslagsstefna Samfylkingarinnar er stórhuga, skýr og raunhæf. Hún er í grunninn unnin af málefnanefnd flokksins um umhverfismál en Ungir jafnaðarmenn gerðu umfangsmiklar breytingartillögur sem voru nær allar teknar inn í stefnuna og styrkja hana mjög. Ungu fólki er best treystandi til að marka stefnu okkar í þessum málaflokki.

 

Mannréttindi, menntakerfi, menningarstefna

Samfylkingin gefur engan afslátt í baráttu sinni fyrir mannréttindum og jaðarsetta hópa í samfélaginu. Í endurskoðaðri stefnu flokksins ber kaflinn Stjórnarfar, ríkisvald og mannréttindi þess glögg merki og jafnaðarmenn munu halda áfram að draga vagninn á því sviði. Þar er einnig að finna mikinn bálk um menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri auk nýrrar og vandaðrar stefnu Samfylkingarinnar um menningarlíf og skapandi greinar í landinu.

 

Aðild að ESB og virk utanríkisstefna

Samfylkingin vill efla og dýpka samvinnu Íslands við Evrópusambandið. Í endurskoðaðri stefnu flokksins er lögð áhersla á virka utanríkisstefnu og að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim, svo sem með grænni utanríkisstefnu, samstöðu með kúguðum og jaðarsettum, baráttu gegn skaðlegri skattasamkeppni og kraftmikilli þróunarsamvinnu.

 

Kosið um lífskjör og loftslagsmál

Á grunni endurskoðaðrar stefnu Samfylkingarinnar hefst nú vinna við kosningastefnu flokksins fyrir Alþingiskosningar næsta haust. Þá verður meðal annars kosið um lífskjör og loftslagsmál. Nú ríkir neyðarástand á íslenskum vinnumarkaði og neyðarástand í loftslagsmálum. Samfylkingin hefur skýra sýn um hvað þarf að gera til að takast á við hvort tveggja. Að loknum kosningum viljum við mynda nýja ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna um vinnu, velferð og grænt samfélag. Þá mun endurskoðuð stefna Samfylkingarinnar koma að gagni.