Einhentur meirihluti á Seltjarnarnesi

Guðmundur Ari Sigurjónsson er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi og skipar 4. sæti í Suðvestur kjördæmi

Guðmundur Ari Sigurjónsson Bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingar Seltirninga

Þessa dagana vinn ég hörðum höndum að því að gera upp íbúð fyrir fjölskylduna mína. Handtökin eru mörg og sum hver flókin en stórfjölskyldan tekur höndum saman, réttir fram hjálparhendur og vinnur verkið í sameiningu.

Þess á milli sit ég fundi í bæjarstjórn Seltjarnarness sem stendur einnig í ströngu þar sem rekstur sveitarfélagsins er ósjálfbær og halli A-sjóðs sem heldur utan um alla þjónustu við íbúa hefur safnað yfir milljarði í halla á síðastliðnum sex árum. Á þessum sömu sex árum hefur meirihluti bæjarstjórnar skorið niður þjónustu og hækkað gjaldskrár á barnafjölskyldur sem hefur leitt það af sér að ánægja íbúa hefur farið sífellt minnkandi samkvæmt þjónustukönnun Gallups. Seltjarnarnesbær var alltaf í efstu sætum þegar kom að mælingum á ánægju íbúa en er nú meðal þeirra neðstu.

Í bæjarstjórninni höfum við í svokölluðum minnihluta rétt reglulega fram hjálparhendur og lagt fram tillögur að bættri þjónustu við íbúa, hagræðingu í rekstri, mótmælt niðurskurði á þjónustu við bæjarbúa og lagt til lausnir til þess að ná fram jafnvægi í rekstri bæjarins. En meirihlutinn hefur ekki aðeins afþakkað þær hjálparhendur heldur hefur hann einnig sýnt að hann er einhentur í störfum sínum. Stjórnun og rekstur sveitarfélaga er þjónusta við íbúa og þegar tekjur duga ekki fyrir þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir er aðeins tvennt í stöðunni. Á aðra höndina að hækka gjöld en í hina að skera niður þjónustu. Báðar aðferðir hafa sína kosti og galla og því er mikilvægt að geta farið blandaða leið til þess að leysa flókin vandamál í sátt við íbúa.

Líkt og þjónustukönnun Gallup hefur sýnt þá mun aldrei nást sátt um meirihluta sem ætlar að vinna einn síns liðs með annarri hendi. Núverandi meirihluti hefur sýnt að hann hefur ekki getuna eða hugrekkið sem þarf til þess að ná jafnvægi á rekstur sveitarfélagsins í sátt við íbúa. Við þurfum því nýjan meirihluta á Seltjarnarnesi sem kann að vinna með báðum höndum og hefur færni til þess að vinna í samstarfi og sátt við íbúa, aðra flokka og starfsfólk bæjarins.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum þann 7. júlí 2021