Frelsi eða fátækt

Oddný frétta banner

„Heimurinn væri öruggari og farsælli ef fleiri bandamenn væru eins og Norðurlöndin“ sagði Barack Obama forseti Bandaríkjanna eftir fund með forsætisráðherrum Norðurlandanna vorið 2016.

Oddný,
Oddný G. Harðardóttir Alþingismaður

Í Bandaríkjunum er það kallað að „ameríski draumurinn“ hafi ræst,  þegar fátækt fólk brýtur af sér hlekki fátæktar og tryggir sér og sínum góða afkomu, menntun og bætta stöðu í samfélaginu. Sá draumur er mun líklegri til að rætast á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum.

Norræna módelið sem Obama vildi líta til féll ekki af himnum ofan. Það byggir á jöfnuði, samhjálp og félagslegu öryggi og hefur skotið norrænu ríkjunum á topp allra lista yfir ríki þar sem best er að búa. Grunn norræna módelsins og stoðirnar sem undir því standa byggðu jafnaðarmenn í samstarfi við sterka verkalýðshreyfingu og stéttarfélög og hafa staðist ágang frjálshyggjunnar.

Stoðirnar þrjár, góð hagstjórn, velferð fyrir alla og skipulagður vinnumarkaður, standa saman eins og fætur undir þrífættum stól: ef ein stoðin brotnar fellur allt.

Á Íslandi, einu ríkasta ríki heims, þrífst fátækt. Þúsundir barna búa hér við sárafátækt eins og greiningar hafa því miður ítrekað sýnt. Öryrkjar og eldra fólk með litlar tekjur eru föst í fátæktargildru. Þau eiga allt sitt undir stjórnvöldum, að greiðslurnar sem þau fá frá hinu opinbera dugi fyrir mannsæmandi lífi. Svo er ekki nú um stundir. Við þeim blasir fátækt og í kjölfarið minnka möguleikarnir sem fólk hefur í lífinu – fátæktin er í sjálfu sér frelsisskerðing.

Þetta þarf ekki að vera svona en er það vegna rangra pólitískra ákvarðana.

Oddný G. Harðardóttir skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi