Geðheilbrigði í forgang

Sérnámslæknar í geðlækningum hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna þess að geðsvið verður ekki hluti af nýjum Landspítala, þrátt fyrir að húsnæðisvandi þess sé mikill og sum húsanna orðin aldargömul eins og lýst hefur verið í fréttum.

Í yfirlýsingunni er ómannúðlegu umhverfi lýst; þröngum göngum, gráum steinveggjum, tvíbýlum, lekum gluggum og takmörkuðu aðgengi að útisvæði. Umhverfi sem ekki er boðleg fólki sem þarf á þessari brýnu þjónustu að halda, né heilbrigðisstarfsfólki.

Í fyrra lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu geðsjúkrahúss, sem hlaut m.a. jákvæðar umsagnir Landspítalans, Læknafélagsins og Geðhjálpar, en ríkisstjórnin svæfði svo í nefnd.

Geðheilbrigðisþjónusta er í ólestri. Biðtími eftir viðtali hjá ADHD teymi Landspítalans er talinn í árum en ekki vikum, margir geðlæknar taka ekki við nýjum skjólstæðingum, bið eftir lífsnauðsynlegri aðstoð átröskunarteymis Landspítalans er allt að ár, biðlistar hjá BUGL eru langir og fólki með fjölþættan vanda, t.d. þroskahömlun og/eða einhverfu og geðheilbrigðisvanda er vísað frá almennri þjónustu.

Samfylkingin vill ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðisþjónustu:

  • Ljúkum uppbyggingu nýs Landspítala á tilsettum tíma og tryggjum viðunandi fjármögnun þannig að spítalinn geti sinnt hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús og í þágu landsmanna allra. Geðdeildir Landspítalans eiga þar ekki að vera undanskildar. Hefjum undirbúning uppbyggingar nýrra geðdeilda með nútímalegri nálgun að meðferð sjúklinga með geðrænar áskoranir að leiðarljósi.
  • Gera þarf heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi til að gera nauðsynlegar breytingar á málaflokknum í þágu notenda þjónustunnar. Hugmyndafræði og innihald þjónustunnar þarfnast endurskoðunar samhliða endurskoðun á húsakostum.
  • Bæta þarf aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og brýnt er að nýjum lögum um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu sé fylgt eftir í fjárlögum og sálfræðingum í heilsugæslu fjölgað.
  • Tryggjum að íbúar á hjúkrunarheimilum og í búsetuþjónustu njóti fullnægjandi geðþjónustu og þverfaglegrar meðferðar.

Við treystum okkur í verkið!

Greinin birtist í Fjarðarfréttir 21. sept.