Borg í menntasókn

Skúli, borgarfulltrúi,

Reykjavíkurborg setur menntamál og velferð íbúa í forgang í fjárhagsáætlun sinni fyrir næsta ár. Grunnskólarnir styrkjast með nýju fjármagni sem nemur 1.546 milljónum á ári sem gerir skólunum kleift að sinna enn betur mismunandi þörfum nemenda.

Skúli Helgason Borgarfulltrúi og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs

Fjármagn til viðhalds skólamannvirkja verður aukið og framkvæmdum flýtt. Verið er að hraða innleiðingu stafrænnar tækni í skólastarfinu til að færa nám og kennsluhætti í grunnskólum til móts við nýja tíma þar sem heimurinn er við fótskör nemenda. Þá er aukið samstarf skóla- og velferðarsviða í verkefninu Betri borg fyrir börn með áherslu á að bæta og samþætta skóla og velferðarþjónustu sem sé veitt í nærumhverfi barnafjölskyldna.

Borgarráð samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að efna til samkeppni um viðbyggingu við Melaskóla sem fagnar 75 ára afmæli á árinu og umbreytingu Hagatorgs í grænan almennings- og útivistargarð fyrir íbúa og börn í leik-, grunnskólum og frístundastarfi hverfisins. Samhliða voru kynntar hugmyndir um framtíð Vörðuskóla og nærliggjandi skólahverfi og stækkun grunnskóla í Laugardal. Þá verður sett af stað vinna við að móta viðmið um forgangsröðun hugmynda um viðbyggingar og meiriháttar endurbætur á skólahúsnæði í borginni.

Við höfum þrefaldað fjármagn til viðhalds skólamannvirkja á undanförnum 5 árum úr 600 í 2.100 milljónir en munum nú gefa enn í. Nú liggja fyrir heildarupplýsingar um ástand skólamannvirkja sem gefur tilefni til að auka og hraða enn framkvæmdum til viðhalds þeirra. Þetta eru alls 136 skýrslur um húsnæði skóla og frístundastarfs í borginni. Á grundvelli þeirra samþykkti borgarráð í gær tillögu borgarstjóra um að varið verði 25-30 milljörðum króna í viðhald skólamannvirkja á næstu 5-7 árum, 4-5 milljörðum á hverju ári. Þetta verður eitt stærsta fjárfestingarverkefni borgarinnar og samræmist vel aðgerðahluta nýrrar menntastefnu borgarinnar þar sem sérstök áhersla er á fullnægjandi húsnæði og aðstöðu barna og starfsfólks sem helgar sig þessum mikilvæga málaflokki.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóv. 2021