Hin nýja inn­viða­skuld

Kristrún, þingflokkur, banner

Árleg framlög til loftslagsmála þegar best lætur í núgildandi fjármálaáætlun nema 13 milljörðum kr. Þetta er jafnhá upphæð og rennur í beina ríkisstyrki til landbúnaðar á Íslandi.

Sem er einmitt grein sem losar umtalsvert af CO2 en ríkisstjórninni dettur ekki í hug að nýta þessa stóru stuðningsgreiðslu til að vinna með loftslagsmarkmiðum okkar. Beina fjármagninu frá framleiðslutengdri kjöt- og mjólkurframleiðslu í sjálfbærari landnýtingu.

Þessir 13 milljarðar eru hverfandi í samanburði við aðgerðir nágrannaþjóða okkar í Evrópu. „Græni díll“ Evrópusambandsins gerir ráð fyrir að hátt í 2% landsframleiðslu Evrópulandanna á ári hverju til 2030 verði varið til grænnar umbreytingar. Það er ígildi rúmlega 60 milljarða kr. hér á landi, fimmfalt á við okkar plön.

Þetta er hluti af atvinnustefnu Evrópusambandsins, langtímasýn sem felst í því að endurhanna hagkerfið til að mæta breyttum tímum. Hér á Íslandi virðist það hins vegar vera æðsta markmið ráðandi stjórnmálaafla að halda sjálfum sér í einu lagi á milli kjördaga. Skuldastöðu ríkissjóðs eftir náttúruvá er ítrekað veifað sem rauðu flaggi en hvergi blikka viðvörunarljósin vegna vanfjármagnaðar loftslagsáætlunar.

Dæmið gengur einfaldlega ekki upp

„Það sem Ísland kem­ur með að borðinu er að við erum eitt af ell­efu ríkj­um sem að hafa lög­fest mark­mið um kol­efn­is­hlut­leysi og það árið 2040, á meðan að samn­ing­ur­inn hvet­ur ríki til að vera kol­efn­is­hlut­laus upp úr miðri öld­inni. Þannig það hef­ur Ísland fram á að færa,“ segir umhverfisráðherra. Þetta eru semsagt stóru loftslagsskrefin á Íslandi. Að vera fyrr til að lögfesta óskilgreint markmið eftir áratugi.

Ástralía tilkynnti um kolefnishlutleysi árið 2050 í síðustu viku. Samhliða birtist áætlun um samdrátt í losun fyrir árið 2030 sem myndi leiða til 4 gráðu hlýnunar ef heimurinn fylgdi. Óútfærð framtíðarloforð eru notuð sem afsökun fyrir aðgerðaleysi næstu ára. Og Ísland leikur nú sama leik: við hreykjum okkur af langtímafyrirheitum um kolefnishlutleysi en stígum ekkert nema hænuskref næstu árin.

Við ætlum að ná kolefnishlutleysi 2040, á undan flestum löndum heims. Samt er markmið okkar um samdrátt í losun fyrir 2030 aðeins 40%. Og raunar ekkert sem bendir til að við náum þessu markmiði m.v. núverandi aðgerðir. Danmörk stefnir á 70% samdrátt fyrir 2030, Svíþjóð 63% og Noregur 55% þrátt fyrir markmið um kolefnishlutleysi áratug síðar en við.

Hvergi í Evrópu er losun á mann jafnmikil og á Íslandi. Við erum eitt af tveimur löndum álfunnar þar sem losun á mann hefur aukist frá 1990. Ríkisstjórn sem er jafnupptekin af skammtímaskuldabókhaldi og raun ber vitni ætti að sjá að þessir útreikningar ganga ekki upp.

Skortur á framtíðarinnviðum

Þetta var kannski fyrirséð. Sitjandi fjármálaráðherra stýrði niðurskurði í innviðafjárfestingu í nafni skuldaniðurgreiðslu á sínum tíma sem hefur margfaldað kostnað við opinberu kerfin okkar. Nú eru það framtíðarinnviðir samfélagsins sem líða fyrir metnaðarleysi í loftslagsmálum, þá úreltu sýn að sóknartækifæri geti ekki falist í að verjast loftslagsvánni með alvöru og fjármögnuðum aðgerðum. Þröngsýni í hagstjórn og skammsýnir yfirborðsútreikningar rýra nú getu okkar til að sækja fram, skapa spennandi störf í heimi tæknilausna á sviði loftslagsmála og búa til bakreikning af áframhaldandi náttúruhamförum.

Góðir hlutir gerast stundum hægt, en ekki í tilviki loftslagsmála. Við erum í kappi við tímann og kostnaður vegna loftslagsmála mun aðeins aukast ef við frestum alvöru aðgerðum. Fyrsta skrefið í átt að alvöru loftslagsaðgerðum er að viðurkenna, hversu óþægilega sem það kann að hljóma, að dæmi núverandi ríkisstjórnar gengur ekki upp. Að ef Ísland ætlar að vera réttum megin í sögunni þurfum við að gera betur og setja markið hærra.

Greinin birtist á vísi.is 8. nóv. 2021