Við þurfum að huga vel að fólkinu okkar það skilar sér í framtíðinni

Velferðarstefna á traustum grunni

Velferðarstefna jafnaðarmanna hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði. Öflug velferðarþjónusta er forsenda réttláts samfélags og hún skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Það skiptir máli að leggja áherslu á þjónustu sem grundvallist af virðingu fyrir sjálfstæði einstaklinga og að sú þjónustan uppfylli grunnþarfir allra bæjarbúa.

Húsnæðismál eru velferðarmál

Eitt af stóru verkefnunum sem blasa við okkur eru húsnæðismál. Húsnæðisöryggi er öllum einstaklingum og fjölskyldum mikilvægt enda ein af okkar grunnþörfum að hafa öruggt húsaskjól og því er óhætt að segja að húsnæðismál sé velferðarmál. Við viljum snúa vörn í sókn og breyta því landslagi á húsnæðismarkaði sem hefur þróast hér síðustu ár undir forystu núverandi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði með því að tryggja fjölbreytileika í framboði bæði á fasteignamarkaði og leigumarkaði á viðráðanlegum kjörum.

Við ætlum að leggja áherslu á uppbyggingu fjölbreyttra íbúða enda verður uppbygging nýrra lausna að mæta þörfum allra hópa. Mikilvægt er að huga að ungu fólki sem er að koma sér upp sínu fyrsta húsnæði og bæjarfélagið þarf að tryggja nægt framboð af fjölbreyttum lóðum. Einnig verður að huga sérstaklega að nýrri uppbyggingu íbúða fyrir eldri borgara í bænum.

Við þurfum að taka höndum saman við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarsjónarmiði, um uppbyggingu leiguíbúða á viðráðanlegum kjörum. Í Hafnarfirði á að byggjast upp öruggur leigumarkaður samhliða fjölbreyttri uppbyggingu íbúða fyrir ungt fólk, fjölskyldufólk, fyrstu kaupendur, eldri borgara og annarra á húsnæðismarkaði.

Ítarlegri upplýsingar um stefnu okkar jafnaðarmanna má nálgast í heild sinni á xshafnarfjordur.is

Kolbrún Magnúsdóttir,
mannauðsstjóri, skipar 6. sæti á lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.