90 þúsund á heimili: Ungt fólk naut góðs af breytingunni

679 milljón króna viðbótarstuðningur rennur til skuldsettra heimila með lág- og millitekjur árið 2023 vegna breytingatillögu Samfylkingarinnar um eignaskerðingarmörk vaxtabóta sem samþykkt var á Alþingi þann 15. desember 2022. Alls hefðu 4.426 heimili dottið út úr vaxtabótakerfinu ef breytingatillagan hefði ekki náð fram að ganga.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar þingmanns sem var fyrsti flutningsmaður breytingatillögunnar. „Ég fagna þessu skrefi mjög eindregið, þeirri samstöðu sem hefur náðst í þessum sal um tillögu okkar,“ sagði Jóhann Páll þegar tillagan var samþykkt við afgreiðslu frumvarps um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga.
Með breytingunni hækkuðu eignaskerðingarmörk vaxtabóta um 50%. Fyrir vikið fengu alls 4.426 heimili vaxtabætur á yfirstandandi ári sem ellegar hefðu ekki notið neinna vaxtabóta. „Þungi vaxtabóta rann til þeirra sem eru í miðri tekjudreifingunni. Tíundir þrjú til sjö fengu 76,5% af ábatanum sem varð við hækkun eignarskerðingarmarkanna,“ segir í svari ráðherra um dreifingu þessa aukna stuðnings niður á tekjuhópa.

Þá kemur fram að stuðningurinn skilaði sér mest til yngra fólks. „Aldurshópurinn 26 til 35 ára fékk 49,5% af auknum stuðningi. Alls fengu fyrstu þrír aldurshóparnir 79,1% af auknum stuðningi,“ segir í svari ráðherra. Meðalábati þeirra sem fengu vaxtabætur vegna breytingarinnar var um 90 þúsund krónur.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu var falið að kostnaðarmeta tillöguna að beiðni fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd vorið 2022 og kallaði verkalýðshreyfingin síðar eftir því í viðræðum við stjórnvöld vegna kjarasamninga að henni yrði hrint í framkvæmd. Um er að ræða eina af þeim tillögum sem kynnt var í Kjarapakka Samfylkingarinnar síðasta haust. Féllst að lokum stjórnarmeirihlutinn á að styðja tillöguna.


„Þó að það sé almennt freistandi að fella tillögur stjórnarandstöðunnar svona prinsippsins vegna, þá verðum við að halda aftur af okkur vegna þess að með því værum við að skjóta okkur í fótinn þar sem tillagan gæti ekki komið aftur til afgreiðslu á þinginu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra þegar greidd voru atkvæði um tillöguna. „Það er nú bara vonandi hægt að skapa góða stemningu hér í þingsal með því að styðja þessa tillögu stjórnarandstöðunnar.“