Ályktun sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar

Sveitarstjórnarráð Samfylkingarinnar tekur undir með verkalýðshreyfingunni að mikilvægt er að þjóðarsátt náist í tengslum við gerð kjarasamninga um aðgerðir til að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Ef árangur á að nást þá getur enginn skorast þar undan. Sveitarstjórnarráð Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnina að nýta þær hugmyndir sem fram hafa komið í kjarapakka Samfylkingarinnar. Í þeim kjarapakka er m.a. gert ráð fyrir hækkun barnabóta til fjölskyldna, vaxtabóta og hækkun húsnæðisbóta til leigjenda.

Þá styður sveitarstjórnarráð framkomnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar sem fela m.a í sér lægri gjaldskrárhækkanir, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum, þar sem ríkið ber mestan hluta kostnaðar. Að því sögðu þá skiptir sköpum að fjármögnun frá ríkinu verði tryggð til framtíðar, en sveitarfélögin í landinu eru því miður margbrennd af vinnubrögðum ríkisvaldsins, sem stofna til verkefna eða taka þátt í kostnaði við verkefni tímabundið þegar þeim er komið á laggirnar. Sveitarfélögin eru svo skilin eftir og þurfa að standa undir kostnaði við veitta þjónustu þegar fram í sækir. Auðvelt á að vera að búa þannig um hnúta að svo verði ekki að þessu sinni. 

 

Sveitarstjórnarráð Samfylkingarinnar 6. mars 2024