Hlúum að fólkinu sem byggði landið

Grein Kristrúnar Frostadóttur í Morgunblaðinu 22. nóvember 2024.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar

Eldra fólk á að fá heiðurssess í heilbrigðiskerfinu. Þess vegna ætlar Samfylkingin að leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks – fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember.

Öldrunarþjónusta virkar ekki sem skyldi á Íslandi. Of margar fjölskyldur hafa kynnst því af eigin raun, og ég get fullyrt sjálf að það er sár upplifun.

„Það særir þjóðarstoltið að horfa upp á stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Eldra fólk er látið liggja frammi á spítalagangi eftir að hafa stritað alla ævi – því það fær ekki þjónustu við hæfi,“ sagði kona um sjötugt á fundi Samfylkingar á Sauðárkróki í fyrra.

Við ætlum að laga þetta
Okkur er alvara. Þess vegna héldum við 40 opna fundi um heilbrigðismál og öldrunarþjónustu í fyrra með fólkinu í landinu – og annað eins með fólki af gólfinu og öðrum sérfræðingum. Til að teikna upp plan og vera tilbúin til verka í nýrri ríkisstjórn.

Samfylkingin ætlar að laga heilbrigðis- og öldrunarþjónustuna. Við getum það. En það verður ekki gert með plástrum og skyndilausnum – heldur með því laga grunninn. Þar eru efst á blaði þjóðarátak í umönnun eldra fólks og fastur heimilislæknir sem þekkir þig og þína sögu.

Ástæðan er einföld: Þetta tvennt kom upp á hverjum einasta opna fundi sem við héldum, og fólkið sem vinnur á gólfinu er sammála. Eins og ein sagði á fundi í Reykjavík: „Ég tala bæði sem læknir og ekki síður sem notandi og aðstandandi. Þið vitið öll hvernig talað er um Landspítalann. En að mínu mati liggur mesti vandinn ekki þar heldur í brotakenndri þjónustu við aldraða.“

Ríkisstjórnin hefur brugðist
Það er eitthvað að þegar fólk þarf að bíða svona lengi á bráðamóttökunni og ástandið versnar ár frá ári. Þegar eldra fólk er látið búa frammi á spítalagangi því það fær ekki þjónustu við hæfi. Þegar 50% Íslendinga eru með fastan heimilislækni en yfir 95% í Noregi.

Staðreyndin er sú að fráfarandi ríkisstjórn hefur algjörlega brugðist. Það á við í ýmsum málaflokkum en ekki síst í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Ríkisstjórnin lýsti því yfir árið 2018 að hún hygðist opna 700 ný hjúkrunarrými fyrir árslok 2024. En hverjar eru efndirnar? Aðeins 200 ný rými hafa verið tekin í notkun á þessum tíma. Miklu minna en að var stefnt. Um leið hefur fjármagn til heimahjúkrunar ekki aukist sem hlutfall af landsframleiðslu frá árinu 2009 – þrátt fyrir öldrun þjóðar.

Vanfjárfesting í velferðarkerfinu
Hafið það í huga þegar Sjálfstæðismenn æpa sig hása yfir því að Samfylkingin ætli að auka útgjöld til heilbrigðismála. Þá erum við að tala fjárfestingu í betra kerfi. En það er dýrara að gera ekki neitt. Því kostnaðurinn vindur stöðugt upp á sig ef við höldum áfram að elta skottið á okkur, eins og fráfarandi ríkisstjórn hefur gert. Það er til dæmis fjórfalt dýrara að sinna mannesku sem þarf mikla umönnun á sjúkrahúsi en á hjúkrunarheimili. Þó er þetta gert í stórum stíl – og það eru engar smáræðisfjárhæðir á hverju ári sem er sóað með þessum hætti. Allt vegna vanfjárfestingar í velferðarkerfi þjóðarinnar.

Þar fyrir utan er alveg ljóst að það mun falla til aukinn kostnaður í heilbrigðisþjónustu á næstu árum. Spurningin er bara hvort við ætlum að fjárfesta í kerfinu til að standa undir betri þjónustu. Eða hvort við höldum áfram á sömu braut, án fjárfestingar, og fáum kostnaðinn samt í bakið með stjórnlausum vexti í rekstrarútgjöldum og verri þjónustu.

Allir sem hafa rekið fyrirtæki skilja að það þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti og koma í veg fyrir sóun. Og þetta skilur Samfylkingin.

Nýtt upphaf með Samfylkingu
Hlúum að fólkinu sem byggði landið. Okkur ber skylda til þess – og það er líka lykillinn að því að laga heilbrigðiskerfið.

Við viljum geta verið stolt af sterku velferðarkerfi. Við verðum að passa upp á það sem við eigum hérna saman. Og við verðum að passa upp á hvert annað.

Með öruggum skrefum getum við byggt upp öfluga öldrunarþjónustu sem er landi og þjóð til sóma. Það vill Samfylkingin gera með því að setja viðkvæmasta hópinn í forgang og með því að viðurkenna að þetta kallar á aukna fjárfestingu og pólitíska forgangsröðun.

Í útspilinu okkar, Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, er að finna örugg skref að settu marki. Þar má nefna aðgerðir sem við viljum ráðast í til að efla heimahjúkrun og samþætta heimaþjónustu – með fjölbreyttum stuðningi til að auka lífsgæðin heima: heimahjúkrun, dagdvölum, félagsstuðningi, iðju- og sjúkraþjálfun. Við ætlum að ganga beint til verka í stórfelldri uppbyggingu og fjármögnun á nýjum hjúkrunarrýmum fyrir þau se ekki geta búið heima, þrátt fyrir öfluga heimaþjónustu. Og með föstum heimilislækni – þar sem við ætlum að setja langveikt fólk og eldri en 60 ára í forgang á fyrsta kjörtímabili – þá getum við gripið fyrr inn í hjá viðkvæmasta hópnum. Þannig fækkum við innlögnum eldra fólks á sjúkrahús.

Nú er tækifæri til að velja nýtt upphaf með Samfylkingu.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands