Frjálst og framsækið Ísland
Ísland á að vera í fremstu röð er varðar mannréttindi og alþjóðasamstarf
Frjálst og framsækið Ísland
Allt starf Samfylkingarinnar byggist á jafnaðarstefnunni þar sem mannréttindi eru grundvallarmál og fjölbreytni mannlífsins fagnað. Samfylkingin er framsækin hreyfing sem vill meiri alþjóðasamvinnu, að Ísland sé opið fyrir nýjum straumum og hafi sterka rödd í samfélagi þjóða, taki vel á móti þeim sem hingað leita og tryggi fólki jöfn tækifæri til að blómstra.
- Þjóðin kjósi um framhald á viðræðum við ESB Samfylkingin vill að Ísland gangi alla leið inn í Evrópusambandið. Flokkurinn vill einnig að staðið verði við fyrirheit um að þjóðin fái að kjósa um framhald á aðildarviðræðum, sem fyrri ríkisstjórnir sviku án þess að bera það undir Alþingi eða þjóðina.
- Ný stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðis-greiðslunnar Samfylkingin vill taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og vinna að nýrri stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012. Þjóðareign auðlinda, jafnt atkvæðavægi og umhverfisvernd eru á meðal þess sem við teljum brýnt að binda í stjórnarskrá.
- Aukinn byggðajöfnuður Samfylkingin beitir sér markvisst fyrir auknum byggðajöfnuði og vill byggja upp sterka almannaþjónustu um allt land ásamt öruggum samgöngum og fjarskiptum. Þannig nýtum við best fjölbreytt tækifæri til verðmætasköpunar þannig að fólk hafi raunhæft val um ólíka búsetukosti.
- Ísland efst á regnbogakort Evrópu Höldum áfram að vinna okkur upp Regnbogakortið, í góðu og nánu samstarfi við hagsmunasamtök hinsegin fólks, þar til Ísland verður í fararbroddi á heimsvísu í mannréttindum hinsegin fólks. Útgangspunkturinn skal alltaf vera forræði hverrar manneskju yfir sjálfri sér og að við skilgreinum okkur öll sjálf.Vefsíða: xs.is/hinsegin-2021
- Betri réttarstaða þolenda Samfylkingin vill tryggja þolendum í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum málsaðild þegar réttað er yfir geranda, stytta málsmeðferðartíma, lögbinda rétt til launaðs leyfis í kjölfar brots, rýmka gjafsóknarreglur og tryggja brotaþolum langtímastuðning og öryggi meðan mál eru til rannsóknar.
- Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks Samfylkingin vill lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun sem þörf er á vegna þessa samnings og annarra. Bæta þarf tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, og brýnt er að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð verði fjölgað jafnt og þétt.
- Mannúðlegri móttaka fólks á flótta Samfylkingin vill taka betur á móti fólki af erlendum uppruna, móta nýja stefnu um fólk á flótta með mannúð að leiðarljósi, og láta af þrengstu túlkunum á útlendingalögum við meðferð á umsóknum. Flokkurinn vill að hætt verði að vísa burt barnafjölskyldum sem fest hafa hér rætur og stöðva frávísanir til óöruggra ríkja.
13 aðgerðir í þágu hinsegin fólks
Jafnréttisbaráttu hinsegin fólks hefur miðað vel áfram á Íslandi, en það er samt sem áður langt í land. Lestu um þau 13 áhersluatriði sem Samfylkingin ætlar að vinna að.
Lestu meira