Guðmundur Ingi Þóroddsson - 3. sæti

Ég býð mig fram í flokksval Samfylkingarinnar í Reykjavík til setu í borgarstjórn Reykjavíkur vegna þess að ég tel að borgin þurfi skýrari félagslegri sýn, meiri samstöðu og raunhæfari úrræði fyrir fólk sem býr við óöryggi, fátækt eða jaðarsetningu. Reykjavík er öflug borg en hún verður aðeins sterk ef allir íbúar hennar fá notið tækifæra, þjónustu og mannvirðingar.  Jöfn úrræði hverfa, öruggt og viðráðanlegt húsnæði, raunhæfar samgöngur og öflug velferðarþjónusta. Það eru mínar áherslur.

Ég heiti Guðmundur Ingi Þóroddsson, 51 árs, fæddur og uppalinn í Árbæ og Breiðholti og hef upplifað jaðarsetningu, fátækt og úrræðaleysi á eigin skinni. Ég hef alla tíð haft sterk tengsl við ytri hverfi borgarinnar og þekki vel þær áskoranir og tækifæri sem þar eru. Ég bý með eiginmanni mínum, Titu Ciprian Balea, sem er upprunninn frá Rúmeníu. Samband okkar og sameiginleg lífsreynsla hefur mótað sýn mína á fjölmenningu, jafnrétti og mikilvægi þess að samfélagið sé opið og réttlátt fyrir öll.

Ég er menntaður í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og hef lokið sérhæfðu námi í umbreytingastjórnun við Yale School of Medicine. Ég stunda nú nám  á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og meistaranám í forystu og stjórnun við Háskólann við Bifröst. Þessi menntun, ásamt víðtækri reynslu úr grasrótarstarfi og stjórnsýslu, hefur veitt mér dýrmæta innsýn í hvernig ákvarðanir mótast og hvaða áhrif þær hafa á líf fólks.

Undanfarin 12 ár hef ég verið formaður Afstöðu-réttindafélags og unnið að uppbyggingu félagsins, stefnumótun og samstarfi við opinbera aðila. Í fyrra starfi mínu á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar starfaði ég meðal annars að málefnum heimilislausra og hef þar séð af eigin raun hversu miklu máli skiptir að borgin bjóði upp á samfellda, manneskjulega og faglega þjónustu. Ég hef jafnframt tekið þátt í fjölda nefnda, starfshópa og ráðgjafarverkefna fyrir ríki og sveitarfélög og starfað með félagasamtökum hérlendis og erlendis.  Ég er í dag sérhæfður starfsmaður Landspítala Háskólasjúkrahúss ásamt minni formennsku.

Helstu áherslur mínar í borgarstjórn snúa að velferð, húsnæði og félagslegum jöfnuði. Sumir kalla þessi mál, mjúkumálin en þau eru ekkert aukaatriði heldur þau, sem skipta okkur mestu máli. Ég tel brýnt að borgin styrki stuðning við börn og ungmenni með fjölþættan vanda og aðstandendur þeirra. Þar skiptir snemmtækur stuðningur, samhæfð þjónusta og raunveruleg eftirfylgd sköpum. Það er óásættanlegt að börn alist upp við fátækt, óöryggi og skort á grunnþjónustu í borg, sem hefur bolmagn til að gera betur.

Málefni heimilislausra eru mér einnig hugleikin. Reykjavík þarf að vera leiðandi í mannúðlegum lausnum, tryggja stöðugleika og vinna markvisst að því að fólk komist út úr varanlegri framfærslu ríkis og sveitarfélaga. Þetta krefst samvinnu annarra sveitarfélaga og ríkis, og mun ég leggja ofuráherslu á það.

Ég legg jafnframt áherslu á fjölbreytt húsnæðisframboð, jöfnuð milli hverfa, réttláta fjárhagsaðstoð og að borgin bjóði öllum sem geta vinnu við hæfi, einnig fólki sem hefur staðið höllum fæti. Reynslu þarf að meta til jafns við menntun og nýta betur í borgarkerfinu. Halda þarf betur utan um þriðja geirann og leikskóli og skóla á ekki aðeins að vera menntastofnun heldur verðum við að tryggja andlega heilsu barna, því annars hefur það alvarlegar afleiðingar á seinni stigum.

 Ég tel að ég eigi erindi í borgarstjórn vegna þess að ég kem með reynslu úr grasrót, stjórnsýslu og hagsmunabaráttu, skýra jafnaðarsýn og vilja til að vinna að raunhæfum lausnum. Ég vil vera tenging milli fólksins í borginni og þeirra sem taka ákvarðanir, og vinna að Reykjavík þar sem enginn er skilinn eftir.

Ég heiti Guðmundur Ingi Þóroddsson og ég býð mig fram í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Við eigum öll samleið!

 

Bestu kveðjur

Guðmundur Ingi Þóroddsson