Gunnar Rúnar Kristjánsson 1. - 4. sæti

"Ódrepandi löngun til að vera í meira návígi við pólitíkina "

Nafn: Gunnar Rúnar Kristjánsson

Fæðingardagur: 29. ágúst 1957

Starf: Fulltrúi hjá Rarik og sauðfjárbóndi

Heimili: Akri, Húnavatnshreppi

"Ódrepandi löngun til að vera í meira návígi við pólitíkina "

---

Ég er fæddur og uppalin í Reykjavík, nánar tiltekið í Laugarnesinu en lengst af búið utan höfuðborgarsvæðisins. Frá 1997 hef ég búið á Akri í Húnavatnshreppi. Ég er giftur Jóhönnu Erlu Pálmadóttur og eigum við tvö uppkomin börn. Ég er menntaður í búvísindum frá landbúnaðarháskólanum í Danmörku. Auk þess hef ég verið í mastersnámi í opinberri stjórnsýslu í HÍ og á ritgerðina eftir. Við höfum rekið lítið sauðfjárbú á Akri en auk þess starfa ég hjá Rarik á Blönduósi.

Frá því að ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum hefur jafnaðarstefnan verið sú stefna sem hefur höfðað mest til mín. Ég gekk í samfylkinguna 2012. Ég er 63 ára gamall og þykir sjálfsagt mörgum skrítið að ég skuli vera að þessu framboðsbrölti orðin þetta gamall en því er til að svara að áhugi minn á meiri þátttöku í stjórnmálum en starfi í grasrótinni eingöngu hefur bara aukist.

Efnahags- og atvinnumál eru mér mjög hugleikin. Það eru spennandi tímar framundan þar sem samtvinna þarf atvinnu- og efnahagsmál við stefnu okkar í loftslags- og umhverfismálum. Þetta kallar á nýja hugsun.

Heilbrigðiskerfið okkar þykkir mjög gott en er það raunin? Vissulega tókst landsspítalanum að halda sjó að mestu þrátt fyrir holskeflur Covid. Það mæddi mjög á starfsfólkinu og í raun aðdáunarvert hvað það var tilbúið að fórna sér. Önnur starfsemi þurfti að víkja og fresta þurfti valkvæðum aðgerðum. Veirusýkingar koma og fara og því nauðsynlegt að byggja heilbrigðiskerfið upp miðað við það. Þá er nauðsynlegt að styrkja heilsugæslu um allt land og efla fjarlækningar.  

Jafnaðarstefnan sem grundvallast í Frelsi – Jafnrétti – Samstaða á sér langa sögu en á jafnmikið erindi við landsmenn í dag eins og áður.

Við upplifum að fátækt er að aukast og lífeyrisþegar og öryrkjar bera minna og minna úr býtum. Kreppur eins og við búum við í augnablikinu magna upp erfiðleika þessarra hópa. Þá er auðurinn að safnast á mun færri hendur. Breytinga er þörf og því er ég tilbúin að leggja lið.