Heiða Björg Hilmisdóttir - 1. sæti

Heiða Björg - lætur verkin tala
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún er menntaður næringarráðgjafi, með meistaragráðu í næringarrekstrarfræði frá Gautaborgar-háskóla í Svíþjóð, MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og diplómu í jákvæðri sálfræði frá Háskóla Íslands. Áður en Heiða hóf störf í stjórnmálum starfaði hún sem forstöðumaður eldhúss og matsala á Landspítala frá 2000 til 2015.
Hún er fædd og uppalin á Akureyri en hefur búið í Reykjavík stærstan hluta ævinnar. Hún er gift Hrannari B. Arnarssyni og eiga þau fjögur börn.
Heiða Björg hefur gegnt forystuhlutverkum í ýmsum samtökum, þar á meðal MS-félaginu á Íslandi sem og formennsku í norræna MS-félaginu og var jafnframt formaður Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands.
Heiða Björg var formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar frá 2013 til 2015. Hún varð borgarfulltrúi í Reykjavík árið 2015 og hefur síðan setið í fjölda nefnda og ráða á vegum borgarinnar, m.a. Borgarráði, Ofbeldisvarnarnefnd og Velferðarráði Reykjavíkur þar sem hún gegndi formennsku um árabil. Í febrúar 2017 var hún kjörin varaformaður Samfylkingarinnar, þegar í hönd fóru mest krefjandi tímar í sögu flokksins. Hún sinnti þeirri stöðu til ársins 2022.
Sem formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar leiddi Heiða Björg gerbreytingu á stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra auk þess sem opnaðir voru rúmlega 20 búsetukjarnar fyrir fatlaða og gerðir tugir NPA-samninga við einstaklinga. Hún leiddi jafnframt verkefnið Betri borg fyrir börn. Þá var ofbeldisvarnanefnd stofnuð að hennar tillögu og einnig var Bjarkahlíð opnuð, en þar er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
Heiða Björg var upphafskona þess að stjórnmálakonur sendu frá sér yfirlýsingu „Áskorun til stjórnmálanna í skugga valdsins #metoo“ þar sem 419 stjórnmálakonur skoruðu á stjórnmálin að breytast og útrýma kynbundinni áreitni, ofbeldi og misbeitingu valds innan sinna raða.
Heiða Björg var kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2022, fyrst kjörinna fulltrúa af vinstri vængnum. Þar náði hún m.a. samkomulagi við ríkið um stóraukið framlag til málaflokks fatlaðra, en samkvæmt samingunum fá sveitarfélögin aukalega um 15 milljarða árlega til að veita þjónustuna. Hún samdi jafnframt við ríkið um gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum landsins sem og um að ríkið ábyrgðist þjónustu við börn með með fjölþættan vanda.
Þann 21. febrúar 2025 tók Heiða Björg við embætti borgarstjóra í Reykjavík í meirihluta-samstarfi Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri-grænna og Flokks fólksins. Samstarfið leggur áherslu á að efla grunnþjónustu, bæta lífsgæði og efla íbúðabyggð fyrir íbúa á öllum aldri. Eitt fyrsta verk Heiðu Bjargar sem borgarstjóri og sem formaður í Sambandi sveitarfélaga var að leysa þann hnút sem kominn var upp í kjaramálum kennara en samningarnir tryggðu kennurum löngu tímabærar kjarabætur.
Hún hefur beitt sér fyrir uppbyggingu íbúða fyrir yngri og efnaminni kaupendur. Notendur frístundakorta hafa aldrei verið fleiri eftir breytingar sem gerðar voru á þeirri þjónustu í tíð núverandi samstarfsflokka. Félagslegar áherslur, húsnæðisuppbygging, ábyrg fjármálastjórn og sókn í málefnum barna og barnafjölskyldna hefur verið í algerum forgangi.
Allan sinn feril hefur Heiða verið öflugur talsmaður velferðar, jafnréttis kynjanna og samfélagsþróunar og unnið stöðugt að því að bæta líf íbúa Reykjavíkur. Hún hefur yfirburða þekkingu á málefnum sveitarfélaga, er mannasættir og hefur sýnt það í störfum sínum að hún er pólitískur dugnaðarforkur sem lætur verkin tala.