Kjartan Valgarðsson

Ég heiti Kjartan Valgarðsson, Hvergerðingur, Vesturbæingur í marga ættliði, Þingeyingur, V-Skaftfellingur og jafnaðarmaður. Ég hefi starfað með Samfylkingunni frá stofnun, gegnt ýmsum trúnaðarstöðum, setið í framkvæmdastjórn, verið gjaldkeri og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og formaður fulltrúaráðsins í Reykjavík, stjórnað kosningabaráttu í höfuðborginni, m.a. þeirri þegar við hringdum í 20.000 kjósendur. Nú er ég fluttur á Álftanesið og er ritari Samfylkingarfélagsins í Garðabæ. Tók þátt á árum áður í ferðum Skíðafélags jafnaðarmanna, Reiðfélags jafnaðarmanna og nú nýlega í Ferðafélagi jafnaðarmanna. Er aðdáandi Bókmenntafélags jafnaðarmanna. Er með BA próf frá HÍ í íslensku og bókmenntafræði og hef unnið í nánast öllum atvinnugreinum landsins. Ég hefi búið langdvölum erlendis, í Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Moçambique og vildi ekki hafa misst af því.

Ég brenn fyrir að gera Samfylkinguna að öflugri flokki, með lifandi aðildarfélögum, skapandi málefnastarfi, skýrri jafnaðarstefnunni, auknu samstarfi við verkalýðshreyfinguna, námskeiða- og fræðslustarfi fyrir flokksmenn og mjög öflugu starfi í yngri flokkunum. Efling hreyfingar ungra jafnaðarmanna mun skila okkur enn öflugri liðsmönnum og -konum, talsmönnum og frambjóðendum og baráttufólki fyrir kjörum ungs fólks.

Alþingiskosningarnar að ári verða afdrifaríkar. Þá mun ráðast hvort hér muni halda áfram ríkisstjórn auðvalds og sérhagsmuna eða hvort við náum að mynda umbótastjórn sem tekur á óréttlætinu í fiskveiðistjórnarkerfinu, bætir kjör vinnandi fjölskyldufólks, eykur jöfnuð og sækir fram með grænni efnahagsstefnu.

Góðir félagar og vinir,

ég mun leggja mig allan fram um að flokkurinn komi eins sterkur til þess leiks og nokkur kostur er. Það mun velta á skipulagi, atvinnumennsku, ósérhlífni, baráttugleði og vinnu þúsunda flokksfélaga og stuðningsfólks.