Helga Vala Helgadóttir

1. sæti Reykjavík norður

Lögfróð leikkona með sterka réttlætiskennd

Helga Vala hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2017, þar sem hún hefur meðal annars barist fyrir réttindum þolenda, öryrkja og flóttafólks, en einnig beint sjónum sínum að geðheilbrigðismálum og öflugu íþróttastarfi. Áður en Helga Vala settist á þing kom hún víða við. Hún er bæði leikara- og lögfræðimenntuð, blanda sem kemur sér vel fyrir manneskju í stjórnmálum. Hún hefur starfað í úrvarpi, gagnrýnt leikhúsverk, rekið veitingahús, verið umboðsmaður hljómsveitarinnar Mammút, kennt við lagadeildina í HR, starfað í Götusmiðjunni og starfað sem blaðamaður. Þá er Helga Vala mikil áhugamanneskja um körfubolta.

Helga Vala er fædd og uppalin í miðborg Reykjavíkur, dóttir leikarahjónanna Helgu Bachmann og Helga Skúlasonar. Hún fékk fyrst systkina sinna úthlutað leikskólaplássi á Tjarnarborg en í þá daga tíðkaðist að eingöngu börn einstæðra mæðra fengju úthlutað leikskólaplássi í Reykjavík en aðrir útivinnandi foreldrar urðu að bjarga sér frá degi til dags. 

Þegar Helga Vala er spurð fyrir hverju hún brennur mest fyrir í stjórnmálum, þá er svarið „Jafnrétti, jafnrétti, jafnrétti!“ Þá eru fjölskyldumál, málefni barna og eldri borgara, réttarvörslukerfið, málefni erlendra borgara henni hugleikin, enda er Helga með sterka réttlætiskennd og bakgrunn í lögmennsku. Þá brennur hún einnig fyrir menntamálum, menningu og listum. „Umhverfismál eru mér líka mikið hjartans mál enda er náttúran okkar stærsta auðlind en ekki óþrjótandi og því þurfum við að gæta að henni.“

Brennur fyrir nýrri stjórnarskrá

Helga Vala brennur fyrir nýrri stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs. „Það held ég að myndi leysa mörg vandamál sem okkur hefur tekist að deila um árum og áratugum saman.“

Náttúran er okkar stærsta auðlind en ekki óþrjótandi og því þurfum við að gæta að henni

Helga Vala Helgadóttir 1. sæti Reykjavík norður

Nokkrar laufléttar...

  • Framliðinn leigubílstjóri ekur í gegnum mig, svo ég rata um ólíklegustu hverfi höfuðborgarsvæðisins.

  • Gróf og krispí bagetta með einhverju evrópsku kjötáleggi, bragðmiklum osti og ferskum tómötum og salati úr hreppunum.

  • Hamingjan felst í því að leggja sig allan fram, hvort sem er í daglegum samskiptum, störfum eða því hvernig maður kemur fram við sig sjálfan.

Æviágrip

Fjölskylduhagir

Helga Vala er gift Grími Atlasyni, bassaleikara og framkvæmdastjóra Geðhjálpar og eiga þau samtals fjögur börn, Snærós, Emil, Ástu Júlíu og Arnald, fjögur barnabörn, Blævi, Kára, Urði Völu og Tíbrá og ævintýraköttinn og mannvininn Júrí. 

Námsferill

Hún gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð og hóf svo nám í Leiklistarskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist sem leikkona árið 1994. Helga Vala stundaði nám við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lauk meistaragráðu árið 2011. Hún opnaði lögmannsstofuna Völvu í félagi við aðra lögmenn sama ár og starfaði sem lögmaður fram að því er hún settist á þing árið 2017.

Starfsferill

Helga Vala hefur komið víða við á sínum fullorðinsárum. Hún lék í leikhúsi og kvikmyndum fyrst eftir útskrift bæði hérlendis og í Bretlandi, stýrði samfélagsþáttum í útvarpi, hvort tveggja á Bylgjunni, sem og Ríkisútvarpinu, var dagskrárgerðarmaður í Speglinum, útvarpskona á Talstöðinni og sjónvarpskona á hinni skammlífu sjónvarpsstöð NFS. Þá var hún um tíma leiklistargagnrýndandi á ýmsum miðlum og loks blaðamaður á Mannlífi sumar og haust 2008. Helga Vala rak veitingahúsið Edinborg á Ísafirði, starfaði á meðferðarheimilinu Götusmiðjunni fyrir unglinga og kenndi leiklist í grunn- og framhaldsskólum víða um land og kenndi stjórnskipunarrétt við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Loks var hún fram að þingmennsku umboðsmaður hinnar frábæru hljómsveitar Mammút.

Félagsstörf

Helga Vala var formaður Samfylkingarfélagsins í Bolungarvík og síðar í stjórn og formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á árunum 2006 – 2010. Þá var hún í stjórn Félags íslenskra leikara 2014-2016, varaformaður Þjóðleikhúsráðs 2012-2014, í höfundaréttarráði frá 2014 og athafnastjóri hjá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista frá árinu 2016.

Stjórnmálaferill

Frá því Helga Vala settist á þing fyrir Samfylkinguna árið 2017 hafa henni verið falin ýmis trúnaðarstörf. Hún sat í kjörbréfanefnd frá 2017, var formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar árin 2017-2019, sat í umhverfis- og samgöngunefnd 2017-2019 og hefur verið formaður velferðarnefndar frá 2019. Þá sat hún í þingmannanefnd um málefni barna og þingmannanefnd um breytingar á lögræðislögum.