Magnea Marinósdóttir - 2. - 4. sæti

Kæri félagi,

Magnea Marinósdóttir heiti ég og gef kost á mér í 2.- 4. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Ég hef alla tíð haft sterka réttlætiskennd og látið samfélagsmál mig varða. Í eðli mínu er ég umbótasinni með getu til að greina hlutina heildstætt. Mér finnst ég einnig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til að fara vel með það vald sem borgarfulltrúum er veitt með lýðræðislegu umboði þínu. Jafnframt tel ég mig hafa það úthald, festu og seiglu sem þarf til að sinna þessu ábyrgðarmikla og annasama starfi.

Til að finna jafnaðar- og jafnréttishugsjón minni farveg gekk ég fyrst til liðs við Samband ungra jafnaðarmanna áður en ég varð stofnfélagi í Samfylkingunni. Síðan þá hef ég lagt hugsjónum Jafnaðarflokks Íslands lið með margskonar hætti. Undanfarin ár hef ég verið tengiliður stjórnar í stefnumótandi málefnastarfi um stjórnarfar og mannréttindi, sit í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, Kvennahreyfingunni og Verkalýðsráðinu auk þess að vera varamaður í framkvæmdastjórn flokksins.

Núna óska ég eftir ykkar stuðningi til að taka sæti í borgarstjórn.

Menntun: Eftir að hafa lokið námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla fór ég í framhaldsnám í alþjóðaöryggismálum með áherslu á átakagreiningar og lausnir frá School of Foreign Service, Georgetown háskóla í Washington D.C. Hlaut námsstyrki frá Fulbright stofnuninni og Samtökum bandarískra háskólakvenna. Fékk einnig rannsóknarstyrk frá Mellon Foundation til að fara á vegum Institute for the Study of International Migration til Tansaníu að gera rannsókn í flóttamannabúðum á leiðum til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi og tillögur að aðgerðum gegn ofbeldinu. Sú reynsla mótaði mig fyrir lífstíð.

Starfsreynsla: Menntun mína tel ég gott veganesti í stjórnmálin. Hið sama má segja um víðfeðma starfsreynslu mína annars vegar hérlendis innan Alþingis, sendiráða, ráðuneyta, sveitarfélaga m.a. Reykjavíkurborgar, félagasamtaka, háskólasamfélagsins og hins vegar utan landsteinanna hjá virtum alþjóðastofnunum eins og UN Women og Alþjóðaráði Rauða krossins. Það mikilvægasta er að störf mín hafa veitt mér tækifæri til að vinna að málum sem snerta grunngildi þeirrar stefnu sem Samfylkingin byggir á. Má þar nefna jafnrétti og kvenréttindi, þróunar- og mannúðarmál og úrlausnarefni sem lúta að þörfum og réttindum fólks af erlendum uppruna.

Erindi mitt í borgarstjórn

Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að gera góða borg enn betri með grunngildi jafnaðarstefnunnar að leiðarljósi, manngæsku og samkennd, sem nú á klárlega undir högg að sækja. Ég vil vinna að úrlausnum mála sem snerta beint stöðu og velferð fólks á öllum aldri óháð uppruna sem og borgarbúa sem reka fyrirtæki og samtök, lista- og menningarstarfsemi.

Sem borgarfulltrúi mun ég ávallt vera óhrædd við að skoða og endurskoða mál með það að markmiði að stuðla að farsælum breytingum í takt við jafnaðarstefnuna. Ég mun hlusta, spyrja spurninga og leita svara: Þarf þétting byggðar endilega að þýða að sumir íbúar borgarinnar búi við skertari lífsgæði en aðrir eins og minni dagsbirtu? Hvað réttlætir það? Þarf ríkið að koma að úrlausn í leikskólamálum? Er brýnt að koma betur á móts við þarfir barna sem tala takmarkaða eða enga íslensku í skólakerfinu og foreldra þeirra? Hvers vegna? Er æskilegt að skapa tækifæri til að nýta betur krafta eldra fólks? Er þjónusta borgarinnar að virka fyrir borgarbúa og fyrirtækin og samtökin sem þau reka? Hvað með þau sem eru með starfsemi á sviði lista og menningar? Er svigrúm til að gera betur og þá hvernig? Er jafnræðis gætt hjá Reykjavíkurborg sem stjórnvaldi og ef ekki, hvers vegna og hvað er mögulegt að gera til að bæta það?

Ég mun jafnframt gæta þess að rót og ólga samtímans beri okkur ekki af leið og út af spori hinnar mannúðlegu jafnaðarstefnu.

Þakka þeim sem veita mér stuðning til góðra verka.