Seltjarnarnes til framtíðar

Eitt samfélag fyrir alla

Stefna Samfylkingar Seltirninga 2018-2022

Samfylkingin vill byggja upp Seltjarnarnes framtíðar, þar sem allir eru velkomnir óháð uppruna, þjóðerni, aldri, félagslegri stöðu eða efnahag. Leiðarstef í öllu okkar starfi er áhersla á jöfn tækifæri, velferð allra íbúa og umhverfisvernd.

Veldu málefni undir seltjarnarnes til framtíðar - eitt samfélag fyrir alla

Sjá öll málefnin

Grunnskólinn

Samfylkingin vill:

  • Skapa eftirsóknarverðan vinnustað fyrir nýja kennara
  • Setja á fót öflugan þróunarsjóð
  • Setja upp kennslustofur búnar nútíma tæknibúnaði
  • Stytta vinnuviku kennara
  • Hækka laun kennara í takt við menntun og ábyrgð
  • Tryggja blandaðar fyrirmyndir með fjölgun karlkennara
  • Taka upp verkferla og áætlanir í eineltismálum
  • Ókeypis námsgögn fyrir öll börn

Samfylkingin vill færa Grunnskóla Seltjarnarness til framtíðar. Það hefur ekki skort viljann til að standa vel að börnum á Nesinu en fáar hugmyndir eru um hvert eigi að stefna til að mæta áskorunum samtímans af áræðni. Gríðarlega gott starf er unnið innan grunnskólans sem er ekki síst að þakka öflugu starfsfólki og kennurum skólans. Framundan eru ákveðin þáttaskil þegar okkar reynslumesta fólk lætur af störfum sökum aldurs á sama tíma og yfirvofandi kennaraskortur er á landinu. Samfylkingin vill gera grunnskólann að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir nýja, skapandi og framtakssama kennara á sama tíma og staða núverandi mannauðs verður treyst.

Við viljum koma á fót öflugum þróunarsjóði þangað sem kennarar á öllum skólastigum geta sótt um fjárveitingu fyrir verkefni sem þeir vilja koma á fót. Með slíkum sjóði viljum við valdefla kennara sem sérfræðinga í menntun barna, þannig að þeir geti haft raunveruleg áhrif á eigið starf og umhverfi. Við viljum veita kennurum sjálfstæði til að þróa sig sem fagmenn og rými til að þróa nám og kennslu í skólanum. Til að framsækin skólaþróunarverkefni geti þrifist þvert á námsgreinar, bekki og skólastig vill Samfylkingin skoða leiðir til að setja upp kennslustofur búnar nútíma tæknibúnaði. Með því bætum við starfsaðstæður kennara á sama tíma og við sköpum börnunum okkar framsækið námsumhverfi sem er í takt við samfélagið utan veggja skólans.

Draga verðu úr álagi á kennara og vill Samfylkingin fara fjölbreyttar og samverkandi leiðir til þessa. Stytting vinnuviku kennara er forgangsverkefni en með því viljum við auka starfsánægju og fækka veikindadögum. Við viljum einnig beita áhrifum okkar innan Sambands Íslenskra sveitarfélaga fyrir því að hækka laun kennara en það er gríðarlegt réttlætismál að laun kennarastéttarinnar, sem að miklu leyti er skipuð konum, endurspegli bæði menntun og ábyrgð. Samfylkingin vill samhliða þessu fjölga karlkyns kennurum en blandaður vinnuhópur skapar betri starfsanda á vinnstöðum. Á sama tíma er ekki síður mikilvægt að bæði stelpur og strákar hafi öflugar fyrirmyndir af báðum kynjum en slíkt bætir bæði nám drengja og stúlkna.

Mikilvægt er að huga að líðan barna í námi og leik innan veggja skólans. Samfylkingin vill efla enn frekar samstarf heimilis og skóla til að ná fram því markmiði. Hún leggur áherslu á að áætlanir og verkferlar í tengslum við einelti verði teknar upp og endurskoðaðar. Á sama tíma þarf að skýra sérstaklega viðbrögð og forvarnir við stafrænu ofbeldi.

Ókeypis námsgögn fyrir öll grunnskólabörn er einnig hjartans mál enda eru jöfn tækifæri til náms grunnstef í stefnu Samfylkingarinnar.