Seltjarnarnes til framtíðar

Eitt samfélag fyrir alla

Stefna Samfylkingar Seltirninga 2018-2022

Samfylkingin vill byggja upp Seltjarnarnes framtíðar, þar sem allir eru velkomnir óháð uppruna, þjóðerni, aldri, félagslegri stöðu eða efnahag. Leiðarstef í öllu okkar starfi er áhersla á jöfn tækifæri, velferð allra íbúa og umhverfisvernd.

Veldu málefni undir seltjarnarnes til framtíðar - eitt samfélag fyrir alla

Sjá öll málefnin

Skipulagsmálin

Samfylkingin vill:

  • Auka samráð við íbúa í skipulagsmálum í formi rafræns vettvangs þar sem íbúar geta kynnt sér skipulagsbreytingar, sent inn athugasemdir og tillögur
  • Klára miðbæjarskipulagið í samstarfi við bæjarbúa. Miðbæjarskipulag Seltjarnarnesbæjar er óklárað skipulag sem nær yfir leikskólann, ráðhúsreit, Austurströnd og Eiðistorg. Mikilvægt er að þetta skipulag verði unnið í öflugu samstarfi við bæjarbúa með fjölbreyttu formi íbúasamráðs. Miðbæjarsvæðið er síðasta alvöru þróunarsvæðið í sveitarfélaginu. Við skipulag þess þurfa bæjarbúar að svara stórum spurningum sem snúa að húsnæðis-, samgöngu- verslunar- og þjónustumálum
  • Að hlutfall af öllum nýjum byggingarreitum séu litlar íbúðir til þess að auka fjölbreytni á íbúðaframboði á Nesinu
  • Lagfæra og bæta ásýnd göngustíga, leiksvæða og annarra almenningsrýma á Seltjarnarnesi
  • Að Borgarlínan gangi út á Seltjarnarnes og tengi Nesið þannig við net háhraða almenningssamgangna sem bætir lífsgæði bæjarbúa og styður við rekstrarumhverfi fyrirtækja á Nesinu
  • Tengja strætóleið sem gengur af Nesinu og út á Granda sem er orðið eitt helsta þjónustusvæði Seltirninga
  • Endurheimta landslagið á vestursvæðinu með því að takmarka athafna- og efnislosunarsvæði bæjarins

Samfylkingin stendur fyrir skýrri framtíðarsýn og festu þegar kemur að skipulagsmálum. Klára þarf skipulag miðbæjarsvæðisins í samráði og samstarfi við bæjarbúa þar sem teknar verða mikilvægar ákvarðanir um framtíðarþróun bæjarins. Þessar ákvarðanir snúa að því hvar Borgarlínan á að stoppa á Nesinu, uppbyggingu á íbúðarhúsnæði og hvernig við getum gert miðbæinn okkar skemmtilegri og meira aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki.

Miðbær Seltjarnarness er ekki aðeins mál bæjarbúa því kjarninn er einnig hluti af samgöngu- og þróunarás svæðisskipulagsins sem tengir höfuðborgarsvæðið saman. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 70 þúsund á næstu 20 árum og umferðarþungi muni aukast um 65%. Meira af því sama skapar aðeins meiri umferðaþunga. Samfylkingin styður Borgarlínu, net háhraða almenningssamgangna, sem styðja mun við rekstrarumhverfi fyrirtækja á Nesinu og flytja íbúa Seltjarnarness óhindrað með vistvænum, öruggum og skjótum hætti frá Eiðistorgi og um allt höfuðborgarsvæðið.

Samfylkingin vill leggja fram skýra húsnæðisáætlun þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu íbúðahúsnæðis í samvinnu við húsnæðissamvinnufélög, samtök eldri borgara, námsmenn og einkaaðila. Leitast verður við að tryggja fjölbreytt framboð búsetukosta fyrir alla félagshópa. Samfylkingin vill mæta íbúum Seltjarnarness þar sem þeir eru staddir hverju sinni, hvort sem þeir eru í námi, að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, stofna fjölskyldu, stækka eða minnka við sig, hvort sem þeir eiga mikla fjármuni eða eiga erfiðara um vik. Þar sem áhersla undanfarinna ára hefur verið á að auka framboð stærri og dýrari íbúða verður til skamms tíma leitast við að auka framboð lítilla íbúða, óháð eignarformi, og miðað við þarfir þeirra sem ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði. Það er stefna okkar að framboð húsnæðis og búsetukostir taki mið af þróun samfélagsins sem og taki tillit til fjölskyldustærða og fjölskyldugerða, aldursbreytinga og efnahagsþróun.

Samfylkingin vill treysta velferð og lífsgæði íbúa Seltjarnarness með því að skilgreina opin svæði í bæjarlandinu með grænu belti. Markmið græna beltisins er að endurskipuleggja, byggja upp og tengja saman róluvelli, torg, almenningsgarða, íþróttasvæði, útivistarsvæði, friðlýst svæði, strendur og fjörur, göngu-, hlaupa- og hjólastíga á Seltjarnarnesi þannig að þau myndi eina heild í landslaginu. Stærð þessara svæða og aðstaða býður upp á mismunandi leiðir til útivistar, leiks og slökunar í frítíma í umhverfi sem skipulagt er í þeim tilgangi. Opin svæði eru stór hluti af fegurð Seltjarnarness. Það er skýlaus krafa að jarðefni sem geymd eru vestan athafnasvæðis bæjarins verði fjarlægð og að bæjarbúar endurheimti verðmæt náttúru- og útivistarsvæði.

Uppbygging vistvænnar götumyndar helst þéttingsfast í hendur við skipulag grænna svæða. Bekkir, ruslatunnur, leiktæki, strætóskýli, hjólaskýli, hjólastandar, upplýsingaskilti, yfirborðsmerkingar, afmörkun bílastæða, blómaker. Í dag ægir öllu saman á Seltjarnarnesi, götugögn í ólíku útliti, mismunandi efni og gæðum blandast saman og gera umhverfið á köflum sundurlaust. Samfylkingin vill leggja áherslu á heildarhugsun í hönnun götugagna sem í bland við uppbyggingu grænna svæða skapa lifandi umhverfi. Með góðu efnisvali og einfaldri nútímahönnun má auka gæði og heildarsvip Seltjarnarness án þess að gera það einsleitt.