Stein Olav Romslo - 4. sæti

Ég er 32 ára stærðfræðikennari og norskur sveitastrákur. Ég er fæddur og uppalinn í bæ sem heitir Ål í Hallingdal í Noregi en ég flutti til Íslands sumarið 2018. Ég lauk meistaragráðu í stærðfræði frá Norska Tækniháskólanum í Þrándheimi. Fyrst lærði ég íslensku í Háskóla Íslands, svo fékk ég vinnu í Hagaskóla og er búinn að vera þar síðan. Þar hef ég tekið að mér mörg og stór hlutverk, meðal annars hef ég verið teymisstjóri árgangateyma, fagstjóri í stærðfræði, umsjónarkennari og leiðtogi þróunarverkefna. Ég hef fengið hvatningarverðlaun borgarinnar fyrir þróunarverkefni um lesskilning og tekið þátt í rannsóknarverkefni Menntavísindasviðs HÍ til að bæta gæði kennslu.

Virkur í grasrótinni

Árið 2020 byrjaði ég í Samfylkingunni og hef á síðustu rúmum 5 árum gegnt ýmsum hlutverkum innan flokksins. Ég hef verið virkur félagi í Hallveigu og Ungu jafnaðarfólki og sat meðal annars í miðstjórn UJ. Árin 2021-2023 sat ég í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, fyrst sem meðstjórnandi og síðar sem gjaldkeri. Í dag gegni ég hlutverki ritara framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og er á mínu öðru kjörtímabili í framkvæmdastjórn. Þangað til íbúaráðin voru lögð af síðasta vor gegndi ég formennsku í íbúaráði Vesturbæjar.

Ekki pabbi, heldur pappa

Fyrir ári varð ég pabbi (eða pappa eins og dóttir okkar kallar mig) og við fjölskyldan höfum fetað okkur í nýjum veruleika. Það er yndislegt að kynnast litlum einstaklingi og lifa og læra saman á hverjum degi. Samstundis upplifðum við óöryggið sem það er að geta ekki treyst á að fá pláss í leikskóla borgarinnar við lok fæðingarorlofs. Foreldrar þurfa því miður að leita skapandi lausna til að láta hversdagsleikann ganga upp en það eru ekki öll í þeirri forréttindastöðu að geta gert ráð fyrir að „þetta reddist“ einhvern veginn. Þannig á þetta líka bara alls ekki að vera. Leikskólar eru grunnstofnanir borgarinnar og án þeirra færi samfélagið á hliðina. Nýr veruleiki okkar minnti okkur rækilega á það hvað nærumhverfið og þjónusta sveitarfélaga spilar stórt hlutverk í lífi fjölskyldunnar. Það verður alltaf að vera forgangsatriði borgarinnar að tryggja íbúum sínum grunnþjónustu. Því einmitt þannig tryggjum við jöfnuð í samfélaginu okkar.

Tökum betur og miklu fyrr utan um börn og ungmenni

Ég hef reynslu af gólfinu sem kennari í hátt í áratug og hef því mikilvæga innsýn inn í stöðu skólanna okkar. Verkefni skólanna eru fjölbreytt og af þannig stærðargráðu að við þurfum fleira fólk í skólana með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Við verðum að hlúa betur að börnunum okkar, sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu. Það er að mínu mati eitt stærsta verkefni okkar að tryggja að börnum og ungmennum líði vel. Gott fyrsta skref væri að tryggja aðgengi að sálfræðingum innan veggja skólanna sem sinna lágþröskuldaþjónustu. Ég vil grípa betur inn í þegar nemendur þurfa stuðning, bæði í námi og félagslega – áður en vandamál og áhyggjur yfirtaka stóran hluta lífs þeirra.

Tungumálið opnar dyr: jöfn tækifæri með öflugri íslenskukennslu

Það þarf meira fjármagn í íslenskukennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku og sömuleiðis fyrir erlent starfsfólk borgarinnar. Ég þekki það á eigin skinni hvað það er mikilvægt að við sem erum af erlendum uppruna fáum tækifæri til að læra íslensku vel. Aukin stoðþjónusta þegar kemur að íslenskukennslu fyrir bæði börn og starfsfólk í Reykjavík verða að vera forgangsmál hjá Samfylkingunni.

Verðugur fulltrúi jafnaðarfólks

Ég hef einlægan áhuga á að halda áfram að gera borgina okkar enn betri. Ég tæki með mér mikla reynslu og þekkingu úr kennarastarfinu og víðar sem er dýrmæt í borgarstjórn og tel að ég yrði verðugur fulltrúi jafnaðarfólks í borgarstjórn. Því sækist ég eftir ykkar stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar 2026.