Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir - 2. sæti

Ég gef kost á mér í 2. sæti í forvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég býð mig fram til að móta framtíð borgarinnar, með skýra sýn, lausnamiðaða hugsun og hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Ég brenn sérstaklega fyrir því að leysa leikskólamálin í eitt skipti fyrir öll. Reykjavík á að geta boðið öllum börnum tímanlega upp á pláss í leikskóla og tryggt gott starfsumhverfi fyrir starfsfólk þeirra. Við eigum að efla leikskólana, ljúka nauðsynlegri uppbyggingu og forgangsraða fjármunum í þágu barna og fjölskyldna – ekki flytja vandann yfir á foreldra með skammsýnum tillögum.

Öruggt húsnæði er grundvöllur allrar velferðar. Reykjavík á að tryggja raunverulegt aðgengi að öruggu og hagkvæmu húsnæði, sérstaklega fyrir ungt fólk, ungar fjölskyldur og einstæða foreldra. Til þess þarf fjölbreytt framboð, uppbyggingu sem tekur mið af þörfum fólks og áframhaldandi stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög svo fólk hafi raunverulega valkosti.

Ég legg áherslu á að borgin sé rekin af ábyrgð og skynsemi, þar sem forgangsraðað er í grunnþjónustu sem skiptir fólk máli. Við eigum að sinna viðhaldi áður en vandamál verða að krísum, einfalda ferla og fjarlægja óþarfa hindranir – hvort sem fólk er að byggja sér heimili, reka fyrirtæki eða skapa ný tækifæri.

Í dag vinn ég sem ráðgjafi í stefnumótun og samskiptum og hef unnið náið með fjölbreyttum fyrirtækjum og stofnunum. Ég var talskona Stígamóta um árabil og framkvæmdstýra UN Women á Íslandi – auk þess sem ég stýrði skrifstofu UN Women í Japan. Ég er einnig formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Í þessum hlutverkum hef ég leitt ýmis umbótaverkefni, unnið þvert á kerfi og náð árangri. Ég veit hvers það krefst að láta hlutina gerast og hvernig má forgangsraða, hlusta og leiða verkefni sem skipta raunverulegu máli fyrir fólk.

Ég býð mig fram til að gera Reykjavík betri – með festu í rekstri og velferð í verki. Fyrir fjölskyldur, börn og framtíð borgarinnar.