Valný Óttarsdóttir - 4. - 6. sæti

Æviágrip og helstu málefni

Ég er fimmtug, gift, 3ja barna móðir og menntaður iðjuþjálfi. Ég er alin upp í Breiðholti, gekk alla mína grunnskólagöngu í Fellaskóla og fór svo í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Síðastliðin 24 ár hef ég búið í Seljahverfi og alið börnin mín þrjú þar svo það má sanni segja að ég sé Breiðhiltingur í húð og hár.

Helstu málefni mín eða það sem ég brenn mest fyrir eru:

  • Eldra fólk, því þau hafa unnið hörðum höndum að því að byggja samfélagið sem við njótum í dag. Við eigum að sýna þeim virðingu og tryggja þeirra vellíðan á efri árum.
  • Fatlað fólk, því fullgild þátttaka í samfélaginu á að vera raunveruleiki fyrir alla, ekki bara suma.
  • Börnin, því þau eru framtíðin (bæði fötluð og ófötluð). Þau eiga skilið uppbyggilegan félagslegan grunn, góð skólasamfélög og öruggt nærumhverfi.
  • Málefni Breiðholts skipta mig miklu máli. Ég hef lengi horft upp á fordóma og neikvæða umfjöllun um þetta líflega og fjölbreytta hverfi, alveg frá því ég var ung.

Ég vil sjá virðingu og jákvæða uppbyggingu í stað fordóma og úreltra hugmynda.

Ég vona að kjósendur treysti mér til að standa vörð um þessi gildi og vinna fyrir Reykjavík af heilum hug, með reynslu, hjarta og skýra sannfæringu að leiðarljósi. Ég tel mig eiga fullt erindi í borgarstjórn, enda hef ég starfað lengi á vettvangi og þekki vel hvar skórinn kreppir: hvað þarf að laga, hvað má gera betur og hvar forgangsröðun getur skilað raunverulegum árangri. Með markvissri vinnu getum við sinnt fólkinu okkar betur. Reynsla mín úr heilbrigðis- og félagslega kerfinu hefur veitt mér dýrmæta innsýn í þessi mál og styrkt mig í þeirri trú að ég geti lagt mikið af mörkum.

Með virðingu og þakklæti

Valný Óttarsdóttir