https://www.facebook.com/Samfylkingin

Er heilsa og öryggi kvenna í hættu?

Á þriðjudagskvöld ætlum við að ræða stöðu leghálsskimana. Helga Vala Helgadottir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir ræða við Ásgeir Thoroddsen og Ernu Bjarnadottir um hvernig staðan sem komin er upp hefur áhrif á heilsu og öryggi kvenna um allt land. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar verður fundarstjóri. Komdu og vertu með á Facebooksíðu Samfylkingarinnar.

Frá síðustu áramótum hafa ítrekað borist fréttir af klúðri heilbrigðisyfirvalda við flutning skimunar á leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslu, Landspítala og danskrar rannsóknarstofu í Hvidovre. Ekki virðist vera nokkur vafi á að starfsfólk allra þessara staða sé vel hæft til sinna starfa en það breytir ekki þeirri staðreynd að ákvarðanataka heilbrigðisyfirvalda um flutning leghálssýna úr landi og framkvæmdin í kjölfarið virðist vera það illa unnin og ómarkviss að eftir standa þúsundir kvenna í óvissu um heilsufar sitt.

Ásgeir Thoroddsen kvensjúkdómalæknir og sérfræðingur í krabbameinslækningum kvenna verður með okkur til þess að veita okkur mikilvæga innsýn og faglegt mat á stöðunni.

Forsprakki aðgerðahópsins “Aðför að heilsu kvenna” Erna Bjarnadóttir verður einnig með okkur á þriðjudaginn. Aðgerðarhópurinn Hefur með sinni rösku framgöngu með Ernu Bjarnadóttur í broddi fylkingar haldið á lofti þeim afleiðingum sem þessi ákvörðun hefur haft í för með sér og sendi nýlega frá sér yfir­lýsingu um málið þar sem ferlið í kringum greiningu sýnanna voru harð­lega gagn­rýnd.