Zoom

Stefnumót með frambjóðanda - Jóhann Páll Jóhannsson

Jóhann Páll,

Stefnumót með frambjóðendum – spurt og spjallað?

Hver er uppáhaldsmatur Jóa? Fyrir hverju brennur hann?

Þetta og margt margt fleira færðu að vita ef þú sest við skjáinn á næstu dögum til að kynnast frambjóðendum okkar í þremur efstu sætunum í Reykjavíkurkjördæmunum suður og norður.

„Vinnum næstu kosningar og tryggjum að upp úr kórónukreppunni rísi réttlátara samfélag sem byggir á fjölbreyttu og sjálfbæru atvinnulífi, sanngjörnum leikreglum á vinnumarkaði og sterku velferðarkerfi þar sem enginn er skilinn eftir.“ Jóhann Páll.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík býður til rafrænna stefnumóta með þeim Jóhanni Páli, Helgu Völu, Kristrúnu, Dagbjörtu, Viðari og Rósu Björk núna í byrjun maí sem hér segir:

Jóhann Páll Jóhannsson

Blaðamaður og stjórnmálahagfræðingur.
Fæddur 1992.

Nýfluttur frá Bretlandi eftir framhaldsnám í evrópskri stjórnmálahagfræði og sagnfræði. Maki er Anna Bergljót Gunnarsdóttir, nýdoktor í efnafræði við Cambridge-háskóla.

„Vinnum næstu kosningar og tryggjum að upp úr kórónukreppunni rísi réttlátara samfélag sem byggir á fjölbreyttu og sjálfbæru atvinnulífi, sanngjörnum leikreglum á vinnumarkaði og sterku velferðarkerfi þar sem enginn er skilinn eftir.“

---

Samfylkingin verður að ná góðum árangri í Alþingiskosningum 2021 svo við getum skipt um kúrs og myndað sterka félagshyggjustjórn á Íslandi með skýra framtíðarsýn í atvinnumálum, velferðarmálum og loftslagsmálum. Við þurfum að koma í veg fyrir að hægriöflin noti kórónuástandið til að skemma sameiginlegu kerfin okkar og grafa undan samstöðu vinnandi fólks. Stóra verkefni Samfylkingarinnar er að leiða saman umbótaöflin á Íslandi og tryggja að upp úr kórónukreppunni rísi réttlátara samfélag sem byggir á fjölbreyttu og sjálfbæru atvinnulífi, sanngjörnum leikreglum á vinnumarkaði og sterku velferðarkerfi þar sem enginn er skilinn eftir.

Menntun og störf

Ég starfaði sem blaðamaður á Stundinni frá stofnun fjölmiðilsins 2015 til 2019 og áður á DV. Hef þrisvar sinnum unnið til blaðamannaverðlauna fyrir störf mín, m.a. fyrir umfjöllun um lekamálið árið 2014 og uppreist æru kynferðisbrotamanna 2017 og auk þess hlotið tilnefningar, m.a. árið 2018 fyrir umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans við Glitni í aðdraganda bankahrunsins.

Ég lauk meistaranámi í evrópskri stjórnmálahagfræði við LSE í haust og meistaranámi í sagnfræði frá Edinborgarháskóla árið 2017. Áður tók ég BA í heimspeki við Háskóla Íslands með lögfræði á alþjóðasviði sem aukagrein. Eftir að ég lauk námi og flutti til Íslands ákvað ég að breyta til, hætta í blaðamennsku og skrá mig í Samfylkinguna. Síðan hef ég m.a. starfað við ráðgjöf og hugmyndavinnu fyrir þingflokkinn okkar, t.d. vinnslu kynningarritsins Ábyrga leiðin – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar.

Helstu áherslur

Á meðal þeirra ýmsu mála sem ég vil beita mér fyrir eru eftirfarandi:

  • Dregið verði úr tekjuskerðingum í barnabótakerfinu svo það verði almennt stuðningsnet líkt og á hinum Norðurlöndunum
  • foreldrar í láglaunastörfum fái fæðingarorlofsgreiðslur sem samsvara lágmarkslaunum en ekki aðeins 80% af fyrri tekjum
  • Húsnæðisstuðningur verði aukinn og ráðist í markvissar aðgerðir til að tryggja húsnæðisöryggi, m.a. með auknum stofnframlögum til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins
  • Hæstu tekjur verði skattlagðar með sambærilegum hætti og í Danmörku og Svíþjóð til að mæta auknum útgjöldum til velferðarmála og innleiddur verði stóreignaskattur með sanngjörnu fríeignamarki
  • Auðlindarentunni í sjávarútvegi verði skilað til þjóðarinnar með blandaðri leið veiðigjalda og uppboðs og spornað verði gegn samþjöppun og yfirgangi stórútgerða með skýrari reglum um yfir­ráð tengdra aðila yfir afla­hlut­deild­um og skilvirkri framkvæmd þeirra
  • Ísland taki slaginn á alþjóðavettvangi gegn efnahagslegu misrétti, skaðlegri skattasamkeppni og yfirgangi hinna stóru og sterku, standi með jaðarsettum hópum og rétti kvenna yfir eigin líkama, mótmæli mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin og axli ábyrgð í flóttamannamálum með mannúðlegri móttöku hælisleitenda
  • Ráðist verði í endurskoðun á lagaumhverfi og stjórnsýslu barnaverndar- og umgengnismála til að tryggja að börn njóti vafans þegar grunur er um ofbeldi á heimili 
  • Mótuð verði sjálfbær atvinnu- og iðnaðarstefna fyrir Ísland með áherslu á hugvit, nýsköpun og háframleiðnigreinar
  • Ríkisstjórn Íslands setji markmið um 60 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 eins og Evrópuþingið og leggi fram metnaðarfyllri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem felur í sér hröðun orkuskipta, stóreflingu almenningssamgangna og markvissar aðgerðir til að bæta landnýtingu og draga úr losun frá landbúnaði