XS – að sjálfsögðu

Stefnuskrá Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Velferðarstefna á traustum grunni

Velferðarstefna jafnaðarmanna hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði. Öflug velferðarþjónusta er forsenda réttláts samfélags og hún skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Velferðarþjónusta bæjarins á að virða sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins og við ætlum að leita allra leiða til þess að lækka álögur á fjölskyldur.

Húsnæðismál eru velferðarmál

Húsnæðismál hafa alla tíð verið meginverkefni jafnaðarmanna enda nálgumst við húsnæðismál sem velferðarmál. Markaðurinn á ekki að vera einráður um húsnæðismál. Við ætlum að ráðast í kraftmiklar aðgerðir í húsnæðismálum að loknum kosningum til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum og horfa til félagslegra lausna í þeim efnum.

Íbúalýðræði og virkt samráð

Lýðræðismál eru okkur í Samfylkingunni hugleikin og við leggjum því mikla áherslu á íbúalýðræði og virkt íbúasamráð. Stjórnsýslan á vera opin og gagnsæ og ábyrg fjármálastjórn er forsenda þess að vel takist til í rekstri sveitarfélagsins.

Við förum í verkin

Samfylkingin er reiðubúin til að taka við stjórn bæjarins að loknum kosningum 14. maí næstkomandi. Við erum tilbúin í verkin og bendum með stolti á verk jafnaðarmanna fyrr og síðar í Hafnarfirði. Eftir kyrrstöðu síðustu ára undir stjórn núverandi meirihluta munu Hafnfirðingar strax skynja og finna þann sóknarhug sem mun fylgja nýjum stjórnarháttum í bænum þegar Samfylkingin tekur við stjórn hans.

Við gefum nú út ítarlega stefnuskrá og í henni nálgumst við stór og lítil viðfangsefni af skilningi og raunsæi. Undir stjórn jafnaðarmanna verður Hafnarfjörður á ný fyrirmyndarsveitarfélag á hinum ýmsu sviðum. Við munum láta verkin tala og það er hægt að taka mark á orðum okkur.

Fjölskyldu-, velferðar- og húsnæðismál

Velferðarstefna jafnaðarmanna hvílir á félagslegu réttlæti og jöfnuði. Öflug velferðarþjónusta eru forsenda réttláts samfélags og hún skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Samfylkingin ætlar að leita allra leiða til þess að lækka álögur á fjölskyldur í bænum. Samfylkingin leggur áherslu á að öll þjónusta grundvallist á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings. Ekki síst á þessi nálgun við í málefnum fatlaðs fólks og við viljum halda í heiðri kjörorðum ÖBÍ – Ekkert um okkur án okkar. Við viljum stórátak í hvers kyns forvarnarmálum og leggjum mikla áherslu á að gera betur í geðheilbrigðismálum. Hafnarfjörður á skipa sér í forystu þegar kemur að geðheilbrigðismálum og á að leggja áherslu á að starfsfólk bæjarins sem kemur að þjónustu við þennan hóp hafi þjálfun og úrræði til þess að leysa verkefnin vel af hendi.

Sjá nánar

Umhverfis-, skipulags- og samgöngumál

Umhverfis- og loftslagsmál í öndvegi og fjölbreyttar samgöngur Samfylkingin er umhverfisvænn flokkur sem leggur áherslu á öflugt atvinnulíf og nýsköpun í sátt við náttúruna. Mikilvægt er að fylgja eftir áætlunum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Liður í því að setja umhverfis- og loftslagsmál í öndvegi eru bættar almenningssamgöngur enda mikilvægt að mæta vaxandi bílaumferð með öðrum valkostum og brýnt að framkvæmdum við Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu ásamt stofnleiðum fyrir hjólreiðar verði flýtt eins og kostur er. Gera verður gangandi og hjólandi vegfarendum jafn hátt undir höfði og öðrum samgöngumátum. Við munum beita okkur í þágu umhverfisvænna og sjálfbærra lausna og ganga fram með góðu fordæmi í umhverfismálum. Það munum við gera með markvissum aðgerðum í að halda mengun í lágmarki og stunda umhverfisvöktun, draga úr myndun úrgangs með ábyrgum innkaupum, neyslu og aukinni endurvinnslu hjá bæjarfélaginu. Umhverfisfræðslu þarf einnig að efla og bæta verður aðgengi bæjarbúa að upplýsingum er varða umhverfis- og loftslagsmál. Áfram verði unnið að því að nýbyggingar og endurbætur húsa verði með umhverfisvænum hætti, t.d. með afslætti af lóðagjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingar. Við Hafnfirðingar eigum fjársjóð í upplandinu okkar og margar útivistarperlur. Við leggjum áherslu á að stuðla að útivist og efla lýðheilsu með ýmsu móti s.s. með fleiri stígum og betri aðstöðu við vinsælar gönguleiðir. Við viljum vinna markvisst að því gera nærumhverfi okkar að eftirsóttu útivistarsvæði og styðja þannig við lýðheilsu bæjarbúa. Mikilvægt er að halda uppi þrýstingi um umbætur á Reykjanesbraut þar sem hún liggur í gegnum Hafnarfjörð. Umferðarþungi á Reykjanesbraut hefur aukist mikið á undanförnum árum m.a. vegna aukins ferðamannastraums og því er mikilvægt að finna leiðir til til að dreifa umferðarálagi í gegnum bæinn t.d. með ofanbyggðarvegi.

Sjá nánar

Fræðsla og menntun

Menntastefna Samfylkingarinnar byggir á gildum um jöfnuð, félagslegt réttlæti og mannréttindi. Skólarnir eru grunnstoð samfélagsins, þar sem við tryggjum börnum og ungmennum jöfn tækifæri til menntunar og þroska. Einnig virkjum við styrkleika þeirra, frumkvæði og sköpunarmátt. Þess vegna leggjum við áherslu á skóla sem byggja á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti, skóla sem fagnar fjölbreytileikanum og rúmar öll börn. Samfylkingin leggur áherslu á samráð við fagfólkið sem starfar innan skólanna í allri ákvarðanatöku sem snýr að starfsemi skóla og vill stuðla að nýsköpun í skólastarfi.

Sjá nánar

Frístundabærinn Hafnarfjörður

Öll börn og ungmenni eiga að geta stundað þær íþróttir og tómstundir sem þau hafa áhuga á óháð efnahagslegum aðstæðum þeirra. Við munum því áfram leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði foreldra og forráðaðmanna vegna þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi meðal annars með hækkun frístundastyrkja. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi er öflug forvörn og við viljum leita allra leiða til þess að minnka brottfall úr slíku starfi þegar komið er fram á unglingsárin. Samfylkingin vill sjá fjölbreytta flóru félagasamtaka starfa að frístundamálum í bænum fyrir alla aldurshópa til að stuðla að fjölbreyttu tómstundastarfi. Við leggjum áherslu á gott samstarf við alla þessa aðila þar sem markmiðið er að tryggja tilveru- og rekstrargrundvöll allra svo flestir geti fundið sér frístundastarf við hæfi.

Atvinnu-, menningar- og ferðamál

Samfylkingin vill styðja við atvinnuuppbyggingu í bænum með markvissum hætti, standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem er í bænum í dag og laða ný atvinnutækifæri til bæjarins. Við viljum sérstaklega styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með myndarlegum hætti. Jafnaðarmenn vita hversu mikilvægt samspil öflugs atvinnulífs og velferðarkerfis er.

Sjá nánar

Lýðræðisbærinn Hafnarfjörður

Ein af grunnstoðunum í stefnu Samfylkingarinnar er áherslan á lýðræði og vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni. Lýðræði er meira en bara kosningar á fjögurra ára fresti. Í því felst jafnframt möguleiki íbúanna á að hafa áhrif á milli kosninga. Á árunum 2002-2014, var Hafnarfjörður leiðandi á meðal sveitarfélaga í lýðræðismálum og nýsköpun í stjórnsýslu. Á þessum árum voru stigin stór skref til aukinnar þátttöku íbúanna í mikilvægum ákvörðunum. Ákvæði um að leggja beri stór mál í dóm kjósenda var bundið í samþykktir bæjarins árið 2002. Jafnframt var bæjarbúum tryggður réttur til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál. Íbúalýðræði byggir þó ekki eingöngu á möguleika á að kjósa um mál á milli sveitarstjórnarkosninga. Það byggir ekki síður á samráði við íbúana áður en ákvarðanir eru teknar. Á árunum 2002-2014 var komið á fót Öldungaráði, Ungmennaráði og notendaráði fatlaðs fólks. Önnur sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Nú hefur einnig verið stofnað fjölmenningarráð skipað íbúum af erlendum uppruna sem er bæjaryfirvöldum til ráðgjafar.

Sjá nánar