Ný atvinnustefna og ábyrg efnahagsstjórn

Ísland verður að vaxa úr kreppunni með því að styrkja innviði, sækja fram fyrri alþjóðageirann og styðja við nýsköpun.

Sjálfbært atvinnulíf mætir grænni framtíð

Við viljum að Ísland vaxi úr kreppunni og höfnum niðurskurðaráætlunum ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Öflug velferðarþjónusta og gengisstöðugleiki er grundvöllur þess að hér sé heilbrigt og gott atvinnulíf. Þess vegna er ábyrga leiðin í efnahagsmálum að styrkja innviði, sækja fram fyrir alþjóðageirann og styðja við nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Stærsta atvinnumál þessa áratugar er svo réttlát og sjálfbær umbreyting í efnahags- og atvinnulífi til að mæta grænni framtíð.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera?

  • Fjárfesta af krafti í grunninnviðum, sér í lagi þeim sem stuðla að grænni umbreytingu, og standa að umbótum við rekstur ríkisins.
  • Hverfa frá áformum núverandi ríkisstjórnar um 100 milljarða niðurskurð, sem ógnar atvinnulífi, almannaþjónustu og hagkerfinu öllu.
  • Móta nýja atvinnustefnu, vinna að stafrænni umbreytingu í þjónustu við fólk og fyrirtæki og bæta stuðning við nýjar stoðir í atvinnulífinu, hugvit, nýsköpun, alþjóðageirann og skapandi greinar.
  • Einfalda rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja og einyrkja, auka þjónustu við þau og létta álögur á þau með setningu frítekjumarks, samanber persónuafslátt. Setja lög um nýtt félagsform fyrir frumkvöðla sem auðveldar stofnun og þróun fyrirtækja með takmörkuðum skyldum fyrstu tvö árin.
  • Byggja nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum í samvinnu við heimafólk, þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning um allt land.
  • Ráðast í sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land og standa fyrir samstilltu átaki til viðhalds og uppbyggingar á ferðamannastöðum. Móta ferðamálastefnu sem stuðlar að aukinni hagsæld.
  • Efla samkeppniseftirlit, setja lög gegn kennitöluflakki og efna fyrirheit síðustu kjarasamninga um aðgerðir gegn brotum á vinnumarkaði.

Við viljum byggja upp í stað þess að skera niður

Samfylkingin leggur áherslu á kraftmikinn grænan hagvöxt á næstu árum. Ríkisstjórnarflokkarnir sem hóta að kippa fótunum undan hagkerfinu með 100 milljarða niðurskurði þurfa hins vegar að svara þessum spurningum: Hvar á að skera niður? Ætla þeir að skera niður í heilbrigðisþjónustunni, í menntakerfinu og í velferðarmálum?

Hlaða niður stefnu

Viltu skoða stefnuna á PDF? Gjörðu svo vel!

Hlaða niður stefnu á PDF