Jafnaðarstefna í byggðaþróun og samgöngum
Samfylkingin vill draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi.
Jafnaðarstefna í efnahags- og atvinnumálum
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í byggðaþróun og samgöngum
Sjá öll málefninSamgöngur skipta sköpum fyrir atvinnu- og byggðaþróun í landinu.
Greiðar samgöngur um land allt eru lykilatriði við að tryggja öllum jöfn tækifæri óháð búsetu. Samfylkingin vill ráðast í stórátak í samgöngumálum til að styrkja Ísland sem heild með því að tengja landshlutana betur saman og stytta vegalengdir innan afmarkaðra vinnusóknarsvæða. Innan þéttbýlismarka þarf að gæta sérstaklega að samspili byggðar og samgangna, til dæmis vegna áhrifa umferðar á umhverfi og lífsgæði en ekki síður af því að skipulag byggðar ræður miklu um umferð og ferðavenjur.
Samfylkingin leggur áherslu á að fjölga valkostum og auka fjölbreytni í samgöngum, svo sem með því að efla almenningssamgöngur, flýta Borgarlínu, efla landsbyggðarstrætó og bæta alla aðstöðu og innviði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í þéttbýli. Allt fellur þetta saman við markmið okkar um lýðheilsu og í loftslagsmálum. Þegar kemur að þjóðvegakerfinu viljum við gefa í til að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf undanfarinna ára og auka nýframkvæmdir með hliðsjón af atvinnustefnu fyrir Ísland og áherslu á styttingu vegalengda og umferðaröryggi. Þá viljum við ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum í samgöngum á sjó, landi og í flugi. Vinna þarf að fjölgun alþjóðlegra fluggátta til landsins, tryggja að gæði varaflugvalla séu viðunandi og að viðhald og uppbygging á innviðum innanlandsflugs taki mið af uppbyggingu ferðaþjónustu.
Fjarskipti ráða miklu um lífsgæði, atvinnutækifæri og byggðaþróun. Samfylkingin vill efla innviði fjarskipta hvarvetna á landinu og tryggja að við njótum öll aðgangs að áreiðanlegu ljósleiðaraneti. Með því að nýta þau tækifæri sem felast í fjölgun starfa án staðsetningar geta stjórnvöld bætt lífskjör og um leið eflt byggðir um land allt. Í því samgengi eru öflug nærþjónusta sveitarfélaga nauðsyn.
Loks er brýnt að tryggja öryggi allra landsmanna í heimabyggð. Fjármagn sem rennur til Ofanflóðasjóðs á að nýta til hraðari uppbyggingar ofanflóðavarna og þá verður farsímasamband að vera tryggt á þjóðvegum landsins.