Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Hvar verður þú á kjördag?

Í síðustu alþingiskosningum greiddu 37.557 einstaklingar atkvæði utankjörfunda eða 18.6% kjósenda. Í ár er jafnvel enn mikilvægara að fólk hugi vel að því með góðum fyrirvara hvort það verði fjarri sínu kjördæmi þann 25. september - því miður getur margt út af brugðið eins og við höfum kynnst vel undanfarin misseri. Kíktu í dagatalið þitt og kannaðu hvar þú verður á kjördag!

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hjá sýslumönnum vegna alþingiskosninga 25. september 2021 hófst föstudaginn 13. ágúst 2021. Greiða má atkvæði utan kjörfundar á skrifstofum og útibúum allra sýslumanna og öðrum þeim stöðum sem nefndir eru eða vísað er til hér að neðan á þeim tíma sem tiltekinn er.

Hvað er utankjörfundaratkvæðagreiðsla?

Ef þú kemst ekki á kjörstað í þínu kjördæmi á kjördag getur þú kosið utan kjörfundar. Þetta getur til dæmis átt við um fólk sem á heima erlendis, er á ferðalagi innanlands eða utan, á ekki heimangengt vegna fötlunar eða veikinda, eða er á sjúkrastofnun eða í fangelsi. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram hjá sýslumönnum eða á sérstökum (oft fjölförnum og aðgengilegum) stöðum í umboði þeirra, og svo hjá sendiskrifstofum eða ræðismönnum erlendis.

Hvernig kýs ég utan kjörfundar á Íslandi?

Ef þú sérð fram á að komast ekki í þitt kjördæmi á kjördag getur þú kosið utan kjörfundar. Þú getur kosið hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað í umdæminu. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram. Upplýsingar frá öllum sýslumannsembættum landsins um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar má nálgast á vefsíðu sýslumanna.

  • Frá og með mánudeginum 23. ágúst og fram að kjördag fer atkvæðagreiðslan fram í Smáralind og Kringlunni og þá verður opið alla daga frá kl. 10:00 – 22:00 alla daga vikunnar.

Höfuðborgarsvæðið - kjörstaðir

Vesturland - kjörstaðir

Vestfirðir - kjörstaðir

Norðurland vestra - kjörstaðir

Norðurland eystra - kjörstaðir

Austurland - kjörstaðir

Suðurland - kjörstaðir

Vestmannaeyjar - kjörstaðir

Suðurnes - kjörstaðir

Athugið að upplýsingarnar geta breyst án fyrirvara.

Öllum þeim sem skráð eru á kjörskrá er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá hvaða sýslumanni sem er, óháð búsetu eða lögheimili.

Hér getur þú séð í hvaða kjördæmi þú ert.

En ef ég kemst alls ekki á kjörstað?

Kosið verður á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, fangelsum og öðrum slíkum stofnunum samkvæmt nánari ákvörðun sýslumanns á hverjum stað í samráði við viðkomandi forstöðumenn. Verður það jafnframt birt á vef Sýslumanna og við munum leitast við að halda þeim upplýsingum til haga þegar það liggur fyrir og tilkynning hefur borist frá viðkomandi sýslumanni.  Aðeins er ætlast til að sjúklingar og vistmenn á stofnunum kjósi á þeim stofnunum sem um ræðir. 

Ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Hún þarf að hafa borist hlutaðeigandi embætti sýslumanns eigi síðar en kl. 16:00 fjórum dögum fyrir kjördag eða þriðjudaginn 21. september kl. 16:00.

Hvernig kýs ég frá útlöndum?

Íslendingar sem búa erlendis geta kosið á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu, aðalræðisskrifstofum Íslands í New York, Winnipeg, Nuuk og Þórshöfn í Færeyjum eða hjá kjörræðismanni samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig vera á kjörskrá. Einnig má senda utankjörfundaratkvæði í umslagi merktum kjósanda á skrifstofu Samfylkingarinnar, Sóltúni 26 - 105 Rvk., og við komum þeim í rétt kjördæmi.

Íslendingar sem eru búsettir erlendis eru hvattir til að kjósa fyrr en síðar þar sem póstgangur í heiminum hefur verið töluvert hægari síðustu misseri en áður. Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum vegna COVID-19 farsóttarinnar geta óhjákvæmilega komið upp tilvik þar sem aðgengi kjósenda að kjörstöðum erlendis er takmarkað af sóttvarnaástæðum. Kjósendum er bent á að hafa samband við sendiskrifstofur varðandi fyrirkomulag á hverjum stað.  Utanríkisráðuneytið hvetur fólk til að bóka tíma á sendiskrifstofum og hjá ræðismönnum við utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis vegna alþingiskosninga 25. september 2021 hófst 13. ágúst.

Hvar er hægt að kjósa?

Þú getur kosið á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða hjá kjörræðismanni. Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að finna þann kjörstað sem er næstur þér:
Upplýsingar um kjörræðismenn og sendiskrifstofur eftir löndum

Hér getur þú séð í hvaða kjördæmi þú ert.

Við erum til staðar fyrir þig!

Öll sem ekki komast til sinnar kjördeildar á kosningadag, þann 25. september, hvort sem þeir eru staddir hér á landi eða erlendis og vantar aðstoð og upplýsingar geta haft samband við Sigrúnu Einarsdóttur, verkefna- og viðburðastjóra Samfylkingarinnar [email protected]. Þá má nálgast leiðbeiningar fyrir kjósendur á vef stjórnarráðsins.

Einnig má senda utankjörfundaratkvæði í umslagi merktum kjósanda á skrifstofu Samfylkingarinnar, Sóltúni 26 - 105 Rvk., og við komum þeim í rétt kjördæmi.

Nálgast má ýmsar almennar upplýsingar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á kosningavef dómsmálaráðuneytisins.