Betra líf
fyrir þig, þína fjölskyldu og komandi kynslóðir
Betra líf fyrir þig og þína fjölskyldu
Samfylkingin hefur eitt meginmarkmið: Betra líf fyrir þig og þína fjölskyldu. Þess vegna viljum við leiða saman ríkisstjórn sem setur fjölskyldur í forgang, byggir upp sterkara, heilbrigðara samfélag og ræðst í alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. En til þess þurfum við að ná góðum árangri í kosningunum 25. september. Kosningastefna Samfylkingarinnar grundvallast á hugmyndum jafnaðarmanna um hvernig líf almennings getur orðið öruggara og betra. Hér kynnum við þær megináherslur sem Samfylkingin setur á oddinn við stjórnarmyndun og í störfum okkar á Alþingi næstu fjögur árin. Aðgerðirnar sem við leggjum til eru metnaðarfullar, en þær eru raunsæjar. Þetta er samningur okkar frambjóðenda við kjósendur. Það er mikið í húfi og við viljum fá þig með okkur í baráttuna. Saman getum við unnið kosningasigur og gert lífið betra – fyrir þig, þína fjölskyldu og allan almenning.
Fjölskyldur í forgang
Samfylkingin vill endurreisa stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur, ráðast í kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði og bæta kjör eldra fólks og öryrkja, sem hafa dregist langt aftur úr öðrum hópum á undanförnum árum.
Lestu meiraAlvöru aðgerðir í loftslagsmálum
Við ætlum að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sókn sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: Raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. Málið er svo mikilvægt. Og þetta er hægt, þetta er raunhæft og þetta er aðkallandi – en til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins.
Lestu meiraSterkara samfélag
Samfylkingin vill byggja upp fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, menntakerfi sem tryggir öllum jöfn tækifæri og móta nýja atvinnustefnu um hugvit, nýsköpun og sjálfbær umskipti. Við viljum vaxa út úr Covid-kreppunni og höfnum alfarið áformum ríkisstjórnarinnar um 100 milljarða niðurskurð á næstu árum. Við viljum beita almennri skynsemi og réttlætissjónarmiðum í skattastefnu og auðlindamálum, vinna að nýrri stjórnarskrá og færa aukin völd beint til almennings.
Lestu meiraFrjálst og framsækið Ísland
Allt starf Samfylkingarinnar byggist á jafnaðarstefnunni þar sem mannréttindi eru grundvallarmál og fjölbreytni mannlífsins fagnað. Samfylkingin er framsækin hreyfing sem vill meiri alþjóðasamvinnu, að Ísland sé opið fyrir nýjum straumum og hafi sterka rödd í samfélagi þjóða, taki vel á móti þeim sem hingað leita og tryggi fólki jöfn tækifæri til að blómstra.
Lestu meira