Menningarlíf og skapandi greinar

Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.

Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Samfylkingin vill styðja við menningarlíf, listafólk og áframhaldandi vöxt skapandi greina á Íslandi af myndarskap. Við teljum að slíkur stuðningur skili samfélaginu miklum ávinningi jafnvel þótt aðeins væri litið til þeirra áhrifa sem unnt er að mæla með hagtölum. Skapandi greinum fylgja ört vaxandi útflutningstekjur, íslenskt menningarlíf er annað helsta aðdráttarafl ferðaþjónustu í landinu og allar atvinnugreinar reiða sig í einhverjum mæli á framlag listafólks eða skapandi greina í víðara samhengi. Við teljum að menning, listir og skapandi greinar verði í lykilhlutverki í efnahagslífi Íslands og í heimshagkerfinu öllu á næstu áratugum og viljum búa í haginn með því að styrkja stöðu okkar á því sviði.

Ríkisútvarpið – almannamiðill

Ríkisútvarpið hefur á undanförnum árum sinnt sífellt betur hlutverki sínu sem almannamiðill í forystu á íslenskum fjölmiðlavettvangi, sem hlutlægs fréttamiðils og umræðuvettvangs, og það gegnir ekki síður mikilvægu hlutverki við sköpun og miðlun í listum og menningu. Grundvallarforsenda fyrir velgengni þjóðarútvarpsins er annars vegar sjálfstæði í störfum og hins vegar traustur fjárhagur til langs tíma þannig að starfsemi stofnunarinnar sé ekki háð duttlungum stjórnvalda eða aðstæðum á auglýsingamarkaði á hverjum tíma. Samfylkingin vill kanna hvort form sjálfseignarstofnunar hentar betur til rekstrar en form opinbers hlutafélags. Heppilegt er að minnka vægi auglýsinga og kostunar í tekjum RÚV, meðal annars vegna tillits til markaðsmiðlanna, en þá verður að tryggja tekjur á móti í þjónustusamningum við ríkið.

Búa verður svo um hnúta að Ríkisútvarpið standi sig á tímum sívaxandi tæknibreytinga og efla starfsemi þess á vefnum. Menningarauðinn í söfnum RÚV verður að virkja með sérstöku átaki og opna þau enn frekar fyrir aðgangi og afnotum almennings.