Menningarlíf og skapandi greinar

Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa.

Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa. Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið. Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Á Íslandi búum við að fjölskrúðugu menningarlífi og njótum sköpunarkrafts metnaðarfullra listamanna sem miðla listsköpun sinni um land allt og út um allan heim. Við erum stolt af því að eiga fjölda fulltrúa á sviði menningar og lista sem eru í fremstu röð á heimsvísu. Ekkert af þessu er sjálfsagður hlutur. Til að viðhalda góðum árangri og sækja fram er brýnt að hlúa vel að hvers kyns menningarstarfsemi í landinu og vinna markvisst að bættu starfsumhverfi listafólks. Þá er fjölbreytt og öflugt listnám undirstaða auðugs menningarlífs.

Samfylkingin vill styðja við menningarlíf, listafólk og áframhaldandi vöxt skapandi greina á Íslandi af myndarskap. Við vitum að slíkur stuðningur skilar samfélaginu miklum ávinningi jafnvel þótt aðeins væri litið til þeirra áhrifa sem unnt er að mæla með hagtölum. Skapandi greinum fylgja ört vaxandi útflutningstekjur, íslenskt menningarlíf er annað helsta aðdráttarafl ferðaþjónustu í landinu og allar atvinnugreinar reiða sig í einhverjum mæli á framlag listafólks eða skapandi greina í víðara samhengi. Menning, listir og skapandi greinar verði í  lykilhlutverki í efnahagslífi Íslands og í heimshagkerfinu öllu á næstu áratugum og við viljum búa í haginn með því að styrkja stöðu okkar á því sviði. 

Samfylkingin leggur ríka áherslu á aðgengi allra að listum og menningu, listnámi og þátttöku í menningarstarfi. Í þeim efnum er okkur ekki síst umhugað um að stuðla að jöfnum tækifæri allra barna og ungmenna og að auka hlutdeild fólks úr jaðarsettum hópum í opinberu menningarlífi.

Við búum í fjölmenningarsamfélagi, fögnum auknum menningarlegum fjölbreytileika og viljum efla þátttöku og sýnileika Íslendinga sem ekki hafa íslensku að móðurmáli á sviði lista og menningar í landinu. Reynslan sýnir að íslenskt menningarlíf blómstrar best þegar það er opið fyrir alþjóðlegum straumum og stefnum. Einangrun og afturhald gera menningu okkar fátækari. Samfylkingin beitir sér því fyrir virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði menningarmála um leið og við viljum varðveita menningararf okkar og tryggja stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi.