Menningarlíf og skapandi greinar

Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa.

Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Almennt aðgengi að listum og menningu

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að allir landsmenn geti notið gróskumikils menningarlífs og átt kost á þátttöku í menningarstarfi í sínu nærsamfélagi. Við viljum tryggja almennt aðgengi að listum og menningu óháð efnahag, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti.

Þátttaka í hvers kyns menningarstarfi stuðlar að menntun og þroska okkar sem einstaklinga og þess vegna er það sérstakt kappsmál jafnaðarmanna að öll börn og ungmenni njóti jafnra tækifæra á því sviði. Samfylkingin beitir sér fyrir fjölbreyttu og öflugu listnámi á Íslandi og faglegri listgreinakennslu á öllum skólastigum. Við viljum bæta aðgengi að framhaldsnámi í listum og að skólagjöld við Listaháskóla Íslands séu ekki hærri en skráningargjöld Háskóla Íslands. Loks viljum við gera listkennslu hærra undir höfði í grunn- og framhaldsskólum.  Þá þarf að tryggja aðgengi að listnámi á háskólastigi óháð efnahag, búsetu, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Við viljum auka aðgengi fatlaðra nemenda að listnámi, meðal annars með þar til gerðum námsleiðum í Listaháskólanum. 

Samfylkingin vill hlúa að fjölmenningarsamfélagi og menningarlegum fjölbreytileika á Íslandi. Brýnt er að auðvelda listafólki af erlendum uppruna þátttöku í lista- og menningarstarfi í landinu og styðja við að fólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli sé sýnilegt í listum og í fjölmiðlum, þar á meðal á vettvangi Ríkisútvarpsins.