Menningarlíf og skapandi greinar

Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa.

Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Ríkisútvarpið – almannamiðill

Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki sem almannamiðill, vettvangur fyrir vandaðar umræður, fréttir,  skapandi greinar, afþreyingu og miðlun  í listum og menningu. Grundvallarforsenda fyrir velgengni þjóðarútvarpsins er annars vegar sjálfstæði í störfum og hins vegar traustur fjárhagur til langs tíma þannig að starfsemi stofnunarinnar sé ekki háð duttlungum stjórnvalda eða aðstæðum á auglýsingamarkaði á hverjum tíma. Athugandi væri að kanna fýsileika þess að minnka vægi auglýsinga og kostunar í tekjum RÚV, meðal annars vegna tillits til einkarekinna fjölmiðla sem þurfa að reiða sig á auglýsingatekjur, en þá verður að tryggja tekjur á móti í þjónustusamningum við ríkið.

Búa verður svo um hnúta að Ríkisútvarpið mæti áskorunum sívaxandi tæknibreytinga og efla starfsemi þess á vefnum. Menningarauðinn í söfnum RÚV verður að virkja með sérstöku átaki og opna þau enn frekar fyrir aðgangi og afnotum almennings.