Menningarlíf og skapandi greinar

Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.

Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa.

Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.

Tunga og menningararfur í stafrænum heimi

Samfylkingin vill auðga líf landsmanna með því að varðveita menningarverðmæti liðins tíma og gera hann aðgengilegan í menningu og listum samtímans heima og erlendis. Í því skyni viljum við meðal annars efla söfn, setur og aðrar menningarstofnanir um landið auk þess að gera menningararf okkar eftir föngum aðgengilegan á stafrænu formi. Gæta þarf að höfundarétti þegar hann er fyrir hendi.

Brýnt er að tryggja stöðu íslensku í alþjóðavæddum og stafrænum heimi og þar gegnir stuðningur hins opinbera lykilhlutverki enda er málsvæði okkar smátt og tæknibreytingar örar. Þörf er á sérstakri vitundarvakningu um viðkvæma stöðu íslenskunnar í málumhverfi sem er meira og minna enskt. Við viljum tryggja fullnægjandi fjármögnun verkefna í máltækni sem styrkja íslensku og að  notkunarsvið hennar haldi í við nýjustu tækni auk þess að styðja vel við miðlun menningar og afþreyingar á íslensku, ekki síst fyrir börn og ungmenni.