Menningarlíf og skapandi greinar
Gróskumikið menningarlíf þroskar einstaklinginn og styrkir samfélagið.
Listin er ómetanleg og hefur gildi í sjálfri sér. Öflugt listalíf er ein meginforsenda þess að hér sé gott að búa.
Listir og menning veita okkur mikilsverð lífsgæði sem ekki verða metin til fjár og gegna þýðingarmiklu hlutverki í frjálsu og lýðræðislegu þjóðfélagi.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í menningarmálum
- Inngangur
- Kjör listamanna
- Almennt aðgengi að listum og menningu
- Tunga og menningararfur í stafrænum heimi
- Ríkisútvarpið – almannamiðill
Kjör listamanna
Forsenda þess að hér sé þróttmikið listalíf er að vel sé búið að listafólki. Stórefla þarf sjóði sem listamenn geta sótt í sér til framfærslu og til að fjármagna verkefni sín. Þau sem starfa í listum búa ekki við sama starfsöryggi og aðrar stéttir og við því þarf samfélagið að bregðast, enda verða listaverk ekki til í tómarúmi. Kórónukreppan afhjúpaði brothætt starfsumhverfi listafólks og þar vill Samfylkingin ráðast í úrbætur, svo sem með því að tryggja félagsleg réttindi þessa hóps og endurskoða regluverk um starfsemi og skattlagningu einyrkja og smærri fyrirtækja.
Samfylkingin vill efla menningarlíf vítt og breitt um landið. Það viljum við meðal annars gera með því að samþætta stuðning við listir og skapandi greinar og framsækna atvinnustefnu flokksins fyrir allt Ísland. Við viljum auka við listamannalaun og annan sambærilegan stuðning við sjálfstætt starfandi listafólk sem getur búið hvarvetna á landinu. Allur slíkur stuðningur skal grundvallast á faglegum forsendum, gagnsæi og jafnræði.
Meginþungi menningarstarfsemi á Íslandi er og verður áfram í höfuðborginni og Samfylkingin beitir sér fyrir eflingu Reykjavíkur sem alþjóðlegrar menningarborgar. Í því felst meðal annars að standa þétt að baki helstu menningarstofnunum þjóðarinnar sem þar eru og njóta góðs af nálægð hver við aðra. Við viljum einnig skilgreina skyldur þessara stofnana gagnvart landsmönnum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og tryggja nægt fjármagn til að unnt sé að uppfylla þær. Loks viljum við, með sérstökum samningum, efla menningarstofnanir í þéttbýliskjörnum sem sinna menningarlegu hlutverki fjarri höfuðborginni.
Þótt fjárframlög til menningarmála megi ekki að stjórnast af þröngum efnahagslegum sjónarmiðum er hagrænn ávinningur af stuðningi við listir og skapandi greinar ótvíræður. Hagtölur skapandi greina þarf að rannsaka með reglubundnum hætti eins og annarra atvinnugreina og með breytur eins og kyn, búsetu og uppruna að leiðarljósi. Einnig er brýnt að líta til þeirra efnahagslegu áhrifa sem íslenskt menningarlíf hefur með landkynningu og sem annað helsta aðdráttarafl ferðaþjónustu á Íslandi. Samfylkingin vill styðja með markvissum hætti við útflutning skapandi greina og sókn listafólks á alþjóðamarkaði.