Ísland í samfélagi þjóðanna
Ísland á að reka mannúðlega utanríkisstefnu sem miðar í senn að því að styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og leggja okkar af mörkum við úrlausn þeirra risavöxnu áskorana sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.
Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim og sé alltaf málsvari friðar, mannúðar, jafnréttis og lýðræðis.
Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að alþjóðasinnar snúi bökum saman, fylki sér um grunngildi opins lýðræðisþjóðfélags og standi vörð það sem áunnist hefur í alþjóðasamvinnu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Veldu málefni undir ísland í samfélagi þjóðanna
- Inngangur
- Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur
- Græn utanríkisstefna
- Þátttaka í varnar- og öryggissamstarfi vestrænna þjóða
- Samstaða með kúguðum og jaðarsettum
- Gegn skaðlegri skattasamkeppni
- Kraftmikil þróunarsamvinna
Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur
Samfylkingin beitir sér fyrir kraftmikilli samvinnu Íslands við önnur lýðræðisríki, ekki síst við nágranna okkar í Evrópu. Margar af mikilvægustu réttarbótum og umbótum sem náðst hafa fram á lýðveldistímanum eru afsprengi Evrópusamvinnu. Samstarf EFTA-ríkjanna við ESB hefur verið stórkostleg lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf og knúið fram nútímavæðingu stjórnsýslu og samkeppnislöggjafar.
Samfylkingin vill efla og dýpka þessa samvinnu og stefnir að fullri aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þangað til þessu markmiði er náð þurfa íslensk stjórnvöld að nýta með markvissari hætti þau tækifæri sem felast í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins, efla hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og bæta framkvæmd EES-samningsins.
Norrænt samstarf hefur alltaf verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslands og hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú. Norrænt samstarf þarf nýjan samstarfssáttmála sem tryggir skilvirkari samvinnu, bætt lífsgæði og aukinn slagkraft Norðurlandanna til að takast á við þau stóru verkefni sem bíða.