Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.

Framhaldsskólar – menntun fyrir alla

Samfylkingin vill gera framhaldsskólum landsins kleift að bjóða menntun og tækifæri fyrir alla. Mikilvægt er að framhaldsskólar geti uppfyllt menntunarþörf í öllum landshlutum, hvort sem er í bóknámi, listnámi eða starfsnámi, en jafnframt er æskilegt að þeir hafi svigrúm til að marka sér sérstöðu þannig að fjölbreyttar námsleiðir bjóðist. Þess vegna leggjum við áherslu á að styðja við nýsköpun og þróunarstarf í framhaldsskólum.

Jafnaðarmenn beita sér gegn efnahagslegri og félagslegri aðgreiningu milli framhaldsskóla. Efnalitlum nemendum á að bjóða styrki til að geta stundað framhaldsskólanám líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Við leggjum áherslu á að efla stoðþjónustu á framhaldsskólastigi, svo sem sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf og íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Einnig viljum við auka samstarf framhaldsskóla og sveitarfélaga um velferð nemenda og upplýsingagjöf fyrir nemendur sem þarfnast sérstaks stuðnings og þjónustu af félagslegum, andlegum og líkamlegum toga.

Samfylkingin vill efla iðnnám, verkmenntun og starfsþjálfun í landinu og við styðjum viðleitni til að vinna gegn hefðbundinni kynjaskiptingu og kynjaðri menningu í starfsnámi. Með bættri umgjörð um vinnustaðanám má draga úr brotthvarfi meðal nemenda í starfsnámi. Mikilvægt er að forvarnir og inngrip vegna brotthvarfs úr framhaldsskólum taki mið af mismunandi þörfum ólíkra hópa sem eru í brotthvarfshættu með félagslegan og menningarlegan jöfnuð að leiðarljósi. Slíkar aðgerðir verða að byggjast á nýjustu rannsóknum um brotthvarfsnemendur.