Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms.

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Menntun skapar skilyrði fyrir lýðræðislegt samfélag víðsýni og réttlætis þar sem borgararnir hafa sjálfstraust og sækja lífsfyllingu í þátttöku. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu, sköpun og vísindi að vopni.

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Menntakerfð frá leikskóla til háskóla er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarstefnunnar því það stuðlar að jöfnuði i samfélaginu. Menntun skapar skilyrði fyrir lýðræðislegt samfélag víðsýni og réttlætis þar sem borgararnir hafa sjálfstraust og sækja lífsfyllingu í þátttöku. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu, sköpun og vísindi að vopni.

Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegar, vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir og þar sem öll eiga möguleika á að rækta hæfileika sína og afla sér þekkingar á eigin forsendum og í þágu samfélagsins alls. Allt skólastarf á að byggjast á virðingu fyrir margbreytileika og mannréttindum.

Samfylkingin leggur áherslu á að efla stoðþjónustu á öllum skólastigum. Einnig þarf að stíga afgerandi skref til að efla geðheilbrigði, með greiðuaðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum, félagsráðgjöf, náms- og starfsráðgjöf og sambærilegum stuðningi. Þarf áhersla á geðheilbrigði að hefjast strax á fyrsta skólastigi. Við viljum tryggja að allir nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli fái fyrsta flokks íslenskukennslu, frá leikskóla upp í háskóla, og aukna aðstoð við móðurmálsnám. Auka ber aðgengi fullorðinna innflytjenda að íslenskunámi, meðal annars í tengslum við vinnustaðina. Inngilding innflytjenda innan skólakerfisins er áreiðanlegasta leiðin til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi. 

Menntun og skólastarf þarf að vera í stöðugri þróun til að mæta nýjum áskorunum og nýjum tækifærum. Samfylkingin vill stuðla að nýsköpun og þróunarstarfi í grunnskólum með öflugum styrktarsjóðum, markvissum starfsþróunartækifærum, víðtækum rannsóknum og faglegum stuðningi. Samfylkingin vill auka rannsóknarstyrki í menntarannsóknum sérstaklega til nýrra doktorsrannsókna og þannig stuðla að nýliðun á meðal háskólakennara í menntavísindum. Þá er brýnt að bæta starfsskilyrði og starfsumhverfi kennara og skólastjórnenda sem lykilaðila í farsælu skólastarfi þannig að faglært fólk kjósi að starfa í menntakerfinu. Þróa þarf fjölþættan stuðning við starfsfólk skóla um allt land.

Við leggjum grunn að lífskjarasókn almennings til framtíðar með því að fjárfesta í fólki og fjárfesta í menntun.  Framtíð íslensks samfélags byggist á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu. Þannig viljum við virkja auðlindir hugans í auknum mæli og þar leikur menntakerfið lykilhlutverk.

Vægi símenntunar verður sífellt meira á tímum örrar tækniþróunar og brýnt er að bjóða atvinnuleitendum endurgjaldslausa starfsþróun. Sú nálgun er samofin norrænni jafnaðarstefnu og forsenda þess að við uppfyllum markmið okkar í efnahags- og atvinnumálum.