Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri
Lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna
Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri
Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í menntamálum
- Inngangur
- Leikskólinn
- Grunnskólinn
- Íþrótta- og tómstundastarf
- Framhaldsskólinn
- Háskólinn
- Endurmenntun
- Nám fatlaðs fólks
- Námsmenn
Grunnskólar – byggjum traustan grunn
Í grunnskólanum viljum við byggja öllum börnum á Íslandi traustan grunn. Öll getum við lært en við erum ólík og lærum með ólíkum hætti. Grunnskólanám á að veita öllum tækifæri til að finna og rækta eigin styrkleika. Samfylkingin vill vinna gegn efnahags- og félagslegri aðgreiningu innan grunnskóla og á milli þeirra. Nám í grunnskóla á að vera að fullu gjaldfrjálst, þar með talið máltíðir og námsgögn.
Samfylkingin vill styrkja möguleika nemenda til að hafa áhrif á nám sitt, meðal annars með aukinni áherslu á val þeirra sjálfra um bæði inntak og aðferðir. Nemendur eiga að hafa sterka rödd þar sem teknar eru ákvarðanir um námskrá og annað sem snertir starfshætti skólanna. Mikilvægt er að bjóða holla og fjölbreytta fæðu í grunnskólum og flétta hreyfingu saman við daglegt skólastarf. List- og verknám á líka að vera stóraukinn hluti af leik og starfi barna í skólunum.
Við viljum vinna að aukinni samþættingu velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfis til að samstilla sem best þjónustu við börn og ungmenni sem þarfnast sérstaks stuðnings og þjónustu af félagslegum, andlegum og líkamlegum toga.
Til að stuðla að jöfnum tækifærum allra barna á Íslandi vill Samfylkingin gera stórátak við að auka möguleika nemenda með annað móðurmál en íslensku til að njóta markvissrar íslenskukennslu í samræmi við þarfir hvers og eins. Þá er einnig mikilvægt að bjóða öllum börnum tækifæri til að verja auknum tíma í íslensku málumhverfi, svo sem með aðgengi að fjölbreyttum frístundum, námskeiðum utan skólatíma og/eða sumarskóla.