Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms.

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Menntun skapar skilyrði fyrir lýðræðislegt samfélag víðsýni og réttlætis þar sem borgararnir hafa sjálfstraust og sækja lífsfyllingu í þátttöku. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu, sköpun og vísindi að vopni.

Afkomuöryggi námsmanna

Samfylkingin vill efla hlutverk Menntasjóðs námsmanna sem félagslegs jöfnunarsjóðs og lítur á sjóðinn sem tæki stjórnvalda til þess að fjárfesta í menntun. Fyrirbyggja þarf að styrkjakerfi lánasjóðsins gagnist fyrst og fremst þeim sem betur eru settir á kostnað þeirra sem helst þurfa á styrk að halda. Sjóðurinn á fyrst og fremst að vera styrktarsjóður í þágu námsmanna og styðja með sanngjörnum hætti við nemendur hvort sem þeir læra á Íslandi eða erlendis. Þetta er lykilatriði til að byggja megi upp kraftmikið þekkingarhagkerfi á Íslandi.

Samfylkingin vill lækka vaxtaþakið á þeim hluta námsstyrkja sem er lán, að lágmarksframvindukröfur verði 18 ECTS-einingar og að tekjutenging afborgana nái til allra stúdenta. Nauðsynlegt er að grunnframfærsla námsmanna dugi fyrir almennum framfærslukostnaði og haldi í við launaþróun. Leiðrétta verður það ranglæti að námsfólki sé neitað um áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga í námshléum þrátt fyrir að tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og annarra. Viðurkennt framhalds- eða háskólanám á ekki að rjúfa samfellu á vinnumarkaði við ákvörðun um rétt til fæðingarorlofs.