Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri
Lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarmanna
Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri
Með námi við hæfi opnast dyr sem áður voru lokaðar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu og vísindi að vopni.
Veldu málefni undir jafnaðarstefna í menntamálum
- Inngangur
- Leikskólinn
- Grunnskólinn
- Íþrótta- og tómstundastarf
- Framhaldsskólinn
- Háskólinn
- Endurmenntun
- Nám fatlaðs fólks
- Námsmenn
Öflugt íþrótta- og tómstundastarf
Öll börn eiga að hafa möguleika á að stunda faglegt íþrótta- og tómstundastarf og listnám utan skólatíma óháð fjárhag foreldra þeirra. Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og listnám hefur víðtækt forvarnargildi og stuðlar að betri líðan, jákvæðum samskiptum, sterkari sjálfsmynd og auknum námsárangri. Við viljum þróa áfram og efla frístundastyrki þannig að öll börn eigi kost á því að stunda eina íþrótt eða tómstund og að staðið verði við fyrirheit um sérstaka styrki til tekjulágra foreldra.
Mikilvægt er að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna úr jaðarhópum að íþrótta- og tómstundastarfi. Samfylkingin vill gæta jafnræðis í fjárveitingum til íþróttastarfs allra kynja og styðja við aðgerðir til að auka aðgengi fatlaðra og hinsegin barna að íþrótta- og tómstundastarfi. Samfylkingin vill blása til stórátaks til þess að auka aðgengi barna af erlendum uppruna í tómstundastarfi Styrkja þarf félög ungmenna í sessi og stofna verkefnasjóð ungmenna til að fjármagna verkefni sem ungt fólk stendur að.
Samfylkingin vill að stutt verði betur við starf félagsmiðstöðva og starfsemi þeirra verði hluti af lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Innan félagsmiðstöðva fer fram mikilvægt forvarnarstarf sem innt er af hendi fagstéttar. Þar fer fram valdefling og kennsla í lífsleikni sem hefur mikið samfélagslegt gildi og félagslegri samheldni. Ríkið á að koma að rekstri þeirra svo sem með styrkjum úr jöfnunarsjóði.
Samfylkingin vill stofna launasjóð fyrir íslenskt afreksíþróttafólk í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sérsambönd þess. Mikilvægt er að gera afreksíþróttafólki á Íslandi kleift að stunda íþrótt sína án þess að fara á mis við þau félagslegu réttindi sem launafólk nýtur á vinnumarkaði.