Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms.

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri

Menntun skapar skilyrði fyrir lýðræðislegt samfélag víðsýni og réttlætis þar sem borgararnir hafa sjálfstraust og sækja lífsfyllingu í þátttöku. Við tökumst á við stærstu viðfangsefni samtímans með þekkingu, sköpun og vísindi að vopni.

Háskólar og rannsóknir – aflvaki félagslegs hreyfanleika og nýjunga í tækni og hugmyndum

Kraftmiklir háskólar eru lykillinn að því að skapa samfélag jöfnuðar og þekkingar á Íslandi. Bakgrunnur, fjárhagur og félagsleg staða fólks á ekki að koma í veg fyrir að það afli sér menntunar. Efla þarf fjárhagslegt stuðningskerfi námsmanna, húsnæðiskerfi og þjónustu við nemendur innan háskólanna.

Hátt menntunarstig þjóðarinnar er lykillinn að aukinni framleiðni og bættum lífskjörum til lengri tíma. Rannsóknir í háskólum eru gangvirki nýsköpunar innan skólanna og utan. Samfylkingin leggur áherslu á að opinber fjárframlög á hvern skráðan háskólanema nái meðaltali norrænu ríkjanna þannig að fjármögnun háskóla standist alþjóðlegan samanburð. Við viljum að gerðar séu ríkar kröfur um framþróun í kennsluháttum og kennslumati íslenskra háskóla í takti við það sem best gerist í heiminum.

Samfylkingin vill að ríkið styðji með markvissum hætti við uppbyggingu öflugra klasa um land allt þar sem atvinnulíf og menntastofnanir mætast með gagnkvæmum ávinningi. Til að ná sem bestum árangri er mikilvægt að móta framsækna atvinnustefnu fyrir allt Ísland. Vísindaþorp geta verið mikil lyftistöng fyrir nýsköpunar- og þekkingariðnaðinn og framfaraskref fyrir háskóla á Íslandi.

Samfylkingin vill bæta aðgengi að framhaldsnámi í listum. Standa þarf vörð um tónlistarskóla og stuðla að jöfnum tækifærum barna og ungmenna til tónlistarnáms.

Tryggja þarf að fólk af erlendum uppruna með háskólamenntun geti fengið menntun sína metna á Íslandi en jafnframt að nemendum með annað móðurmál en íslensku bjóðist sem fjölbreyttast háskólanám á Íslandi. Að sama skapi vill Samfylkingin tryggja að háskólanám verði inngildandi og aðgengilegt fötluðum nemendum. Endurskoða þarf stuðningsþjónustu með tilliti til þekkingar og reynslu.

Samfylkingin leggst alfarið gegn skólagjöldum og skráningargjöldum í opinberum háskólum. Menntun er fjárfesting samfélagsins í einstaklingum og á að vera gjaldfrjáls.